Blomberg-Lippe, sem landsliðskonurnar Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir leika með, tapaði naumlega fyrir Borussia Dortmund, 22:21, í þriðju umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Sporthalle Wellinghofen, heimavelli Dortmund.
Blomberg átti möguleika á að jafna metin undir lokin úr síðustu sókninni en allt kom fyrir ekki. Sarah Wachter markvörður Dortmund var á verði og kom í veg fyrir jöfnunarmark Blomberg-Lippe.
Díana Dögg skoraði þrjú mörk, átti eina stoðsendingu, skapaði fjögur marktækifæri.
Andrea skoraði eitt mark, átti eina stoðsendingu, skapaði tvö marktækifæri, stal boltanum einu sinni og varð að bíta í það súra epli að vera vikið einu sinni af leikvelli.
Blomberg-Lippe hefur tvö stig að loknum þremur leikjum.
Andrea og Díana Dögg eru á heimleið til æfinga með landsliðinu sem fer til Tékklands um miðja vikuna til þriggja leikja á móti í Cheb. Þátttaka í mótinu er liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem hefst í lok nóvember.
Emma Olsson sem varð Íslandsmeistari með Fram vorið 2021 og lék stórt hlutverk í liðinu leiktíðina 2021/2021 skoraði eitt mark fyrir Dortmund. Olsson hefur verið hjá félaginu síðan hún kvaddi Fram sumarið 2022.
Tus Metzingen, sem Sandra Erlingsdóttir er samningsbundin hjá, tapaði fyrir Thüringer HC, 36:29, á heimavelli í gær. Sandra er í fæðingaorlofi en hún fæddi dreng í júlí.
Stöðuna í þýsku 1. deild kvenna og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.