Snorri Steinn Guðjónsson er efstur á lista margra innan HSÍ í starf landsliðsþjálfara karla í handknattleik. Aðrir vilja fá útlending í starfið. Frá þessu segir Morgunblaðið og mbl.is í morgun.
Þar kemur einnig fram að óeining ríki innan sambandsins varðandi næstu skref en tveir mánuðir eru liðnir síðan Guðmundi Þórði Guðmundssyni var sagt upp. Ósamkomulagið hefur orðið til þess að engar formlegar viðræður, við þjálfara sem til álita kunna að koma, byrjaðar.
Christian Berge fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs og núverandi þjálfari nýkrýndra Noregsmeistara Kolstad er einn þeirra sem sagt er að HSÍ hafi undir smásjá samkvæmt frétt Morgunblaðsins/mbl.is.
Norsk/dönsk samvinna?
Einnig er Daninn Keld Wilhelmsen sagður vera í sigtinu. Hann er aðstoðarþjálfari danska meistaraliðsins GOG en engan reynslu sem þjálfari landsliða. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins/mbl.is hefur þeim möguleika verið velt upp að Norðmaðurinn og Daninn myndi teymi við þjálfun karlalandsliðs Íslands. Ekki er vitað til að Berge og Wilhelmsen hafi einhverntímann átt eitthvað saman að sælda.
Apelgren er úr leik
Í grein Morgunblaðsins, sem prýðir forsíðu blaðsins í dag, segir að forráðamenn HSÍ hafi rætt óformlega við Dag Sigurðsson, Snorra Stein og Svíann Michael Apelgren. Sá síðastnefndi kemur ekki lengur til greina vegna þess að útgönguleið hans úr samningi við sænska liðið Sävehof hefur lokast.
Treglega gengur
Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað við þjálfara og segir Morgunblaðið/mbl.is það vera vegna þess að treglega gangi innan sambandsins að sammælast um nýjan þjálfara og þar af leiðandi að ganga til formlegra viðræðna við hann.
Samstarfinu var ekki viðbjargandi.
Guðmundur Þórður er hættur þjálfun landsliðsins