Þýska handknattleiksliðið Balingen-Weilstetten jók forskot sitt í efsta sæti 2. deildar í kvöld upp í sex stig með fimm marka sigri á Dormagen, 29:24, á útivelli. Á sama tíma tapaði Eisenach sem er í öðru sæti fyrir Tusem Essen, 28:24. Oddur Gretarsson átti enn einn stórleikinn fyrir Balingen-Weilstetten að þessu sinni.
Oddur skoraði 12 mörk í 13 skotum, þar af skoraði hann sjö sinnum af vítalínunni og var með fullkomna nýtingu. Daníel Þór Ingason skoraði ekki fyrir Balingen-Weilstetten í leiknum. Hann átti þrjár stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli enda ekki þekktur fyrir að gefa þumlung eftir.
Oddur er þar með kominn upp í þriðja sæti á lista yfir markahæstu leikmenn 2. deildar með 155 mörk. Hann er níu mörkum á eftir Ihor Turchenko leikmanni HC Motor.
Balingen-Weilstetten hefur 42 stig að loknum 25 leikjum. Eisenach hefur 36 stig og N-Lübbecke 35 stig eins og Nordhorn. Dessauer er með 34 stig. Það er mikið kapphlaup um annað sætið.
HC Motor tapaði á heimavelli í kvöld fyrir Nordhorn, 35:27. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor og Gintaras Savukynas fyrrverandi leikmaður Aftureldingar er aðalþjálfari úkraínsku meistaranna sem leika sem gestalið í þýsku 2. deildinni í vetur. HC Motor er í 17. sæti af 20 liðum með 15 stig eftir 23 leiki.