Oddur Gretarsson og samherjar í Balingen-Weilstetten stigu stórt skref í átt til þess að halda sæti sínu í þýsku 1. deildinni í kvöld þegar þeir lögðu Wetzlar, 30:28, á heimavelli. Á sama tíma tapaði Ludwigshafen, sem sótt hefur hart að Balingen upp á síðkastið, fyrir Ómari Inga Magnússyni og samherjum í SC Magdeburg.
Oddur skoraði eitt mark úr vítakasti í dag en hann er meiddur og tekur lítið þátt í leikjum Balingen um þessar mundir.
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Magdeburg í sigrinum á Ludwigshafen, 37:29, og er þar með orðinn markahæstur í deildinni. Hann er fimm mörkum á undan Marcel Schiller en sá síðarnefndi á leik til góða á morgun þegar lið hans, Göppingen, sækir Kiel heima.
Magdeburg er sem fyrr í þriðja sæti deildarinnar. Staðan í deildinni er neðst í greininni.
Arnór Þór Gunnarsson var fjarverandi vegna meiðsla þegar lið hans Bergischer HC tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen, 28:26, á heimavelli. Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki mark fyrir Löwen en lét til sín taka í vörninni og var einu sinni vísað af leikvelli. Samherji Ýmis Arnar, Uwe Gensheimer fór mikinn og skoraði 12 mörk, fjögur úr vítaköstum.
Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk og var með fullkomna skotnýtingu þegar Stuttgart sótti tvö stig í sarpinn í heimsókn til Norhorn, 29:26.
Staðan: