Heimsmeistarar Danmerkur leika við Þjóðverja í úrslitaleik handknattleikskeppni karla á sunnudaginn. Danir lögðu Slóvena með minnsta mun, 31:30, í Lille í kvöld. Slóvenar sóttu hart að danska liðinu undir lokin og tókst að skora tvö síðustu mörkin. Þeim vantaði hinsvegar herslumuninn upp á og e.t.v. má sega að danska liðið hafi sloppið fyrir horn.
Slóvenar mæta Spánverjum um bronsverðlaunin. Slóvenskt landslið hefur aldrei fyrr átt möguleika á verðlaunum í handknattleikskeppni á Ólympíuleikum, hvorki í karla- né kvennaflokki.
Þetta verða þriðju leikarnir í röð sem Danir leika til úrslita á í karlaflokki.
Úrslitaleikir sunnudaginn 11. ágúst:
1. sæti: Þýskaland – Danmörk, kl. 11.30.
3. sæti: Spánn – Slóvenía, kl. 7.
Danir voru mun sterkari í fyrri hálfleik og voru með fimm marka forskot að honum loknum. Slóvenar voru ekki af baki dottnir. Þeir voru áfram undir en lögðu aldrei árar í bát. Miklu munaði að markvörðurinn Klemen Ferlin varði vel og aðstoðaði við að minnka forskot Dana. Ferlin varði vítakast frá Mikkel Hansen 17 sekúndum fyrir leikslok og gaf slóvenska liðinu von um jöfnunarmark sem náðist ekki þrátt fyrir góðan vilja.
Danmörk – Slóvenía 31:30 (15:10).
Mörk Danmerkur: Magnus Landin 6, Lukas Jørgensen 5, Mikkel Hansen 5/5, Mathias Gidsel 4, Simon Pytlick 4, Rasmus Lauge 4, Niclas Kirkeløkke 2, Magnus Saugstrup 1.
Varin skot: Emil Nielsen 8, 28% – Niklas Landin 1/1, 10%.
Mörk Slóveníu: Aleks Vlah 7/2, Dean Bombac 7, Borut Mackovsek 4, Blaz Janc 4, Jure Dolenec 3/1, Domen Novak 2, Kristjan Horzen 1, Stas Jovicic 1, Blaz Blagotinsek 1.
Varin skot: Klemen Ferlin 11/1, 35% – Urban Lesjak 2/1, 17%.
ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan