Spánverjar unnu í fimmta skipti bronsverðlaun í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum þegar þeir unnu Slóvena, 23:22, í viðureign um 3. sætið Pierre Mauroy Arena í Lille í morgun. Á móti kom að tækifæri Slóvena til þess að vinna verðlaun í fyrsta skipti í handknattleik á Ólympíuleikum gekk þeim úr greipum.
Spænska karlalandsliðið í handknattleik hefur fimm sinnum komist í undanúrslit í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum en aldrei tekist að leika til úrslita. Spánverjum hefur þrátt fyrir vonbrigðin að missa af sæti í úrslitaleiknum lánast að gera það besta úr stöðunni, þ.e. að vinna bronsverðlaunin.
Leikur Spánar og Slóveníu í morgun var jafn frá upphafi til enda. Liðin voru með eins marks forskot á víxl. Síðast voru Slóvenar yfir, 20:19, þegar rétt innan við átta mínútur voru til leiksloka.
Klukkan 13 hefst úrslitaleikur Danmerkur og Þýskalands. RÚV sendir beint út frá leiknum.
Spánn – Slóvenía 23:22 (12:12).
Mörk Spánar: Aleix Gómez 5/3, Agustin Casado 4, Abel Serdio 3, Alex Dujshebaev 2, Jorge Maqueda 2, Kauldi Odroiozola 2, Daniel Fernandez 2, Miguel Sanchez-Migallon 2, Daniel Dujshebaev 1.
Varin skot: Gonzalo Perez de Vargas 9, 30% – Rodrigo Corrales 0.
Mörk Slóveníu: Jure Dolenec 6/6, Blaz Janc 5, Aleks Vlah 3, Tilen Kordin 3, Dean Bombac 2, Borut Mackovsek 2, Domen Novak 1.
Varin skot: Klemen Ferlin 11, 32%.
ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan