Frakkar eru tvöfaldir Ólympíumeistarar í handknattleik eftir að kvennalandslið þjóðarinnar lagði Rússland með fimm marka mun, 30:25, í síðasta leik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem Frakkar fagna sigri í kvennaflokki á Ólympíuleikum en liðið hafnaði í öðru sæti í Ríó fyrir fimm árum eftir að hafa tapað fyrir Rússum í úrslitaleik. Það voru fyrstu verðlaun Frakka í handknattleik kvenna. Það sem meira er að kvennlandsliðið vann ríkjandi Ólympíumeistara eins og karlalandsliðið gerði í gær.
Þetta er aðeins í þriðja sinn sem landslið sömu þjóðar vinnur gullverðlaun bæði í handknattleik karla og kvenna á sömu leikum. Sovétríkin unnu tvöfalt 1976 þegar fyrst var keppni í handknattleik í kvennaflokki á Ólympíuleikum. Landslið Júgóslavíu léku sama leik átta árum síðar í Los Angeles þegar mörg ríki Austur-Evrópu hundsuðu leikana, þar á meðal Sovétríkin.
Frakkar voru sterkari í fyrri hálfleik gegn Rússum í morgun og voru með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:13. Rússum tókst að jafna metin, 16:16, snemma í síðari hálfleik. Franska liðið svaraði með sex mörkum í röð. Eftir það lék aldrei vafi á hvort liðanna færi með sigur úr býtum.
Frönsku varnarmönnunum gekk vel að halda aftur af Önnu Vuakhirevu sem lék norska landsliðið grátt í undanúrslitum. Hún skoraði fjögur mörk en Polina Vedekhina var markahæst hjá Rússum með sjö mörk og Daria Dmitreva var næst með sex mörk, þar af þrjú út vítaköstum. Markverðir Rússa virtust miður sín og náðu vart að verja skot.
Hin þrautreynda Allison Pineau var markahæst í franska liðinu með sjö mörk ásamt Paulettu Foppa. Pineau skoraði öll mörkin úr vítaköstum. Chloe Valentini skoraði fjórum sinnum. Frönsku markverðirnir voru með 32 % markvörslu, þar af átti Cleopatre Darleux stórleik þá stund sem hún stóð á milli stanganna. Darleux varði 9 skot, 43%.
Le premier titre olympique du handball féminin ! Historique et mérité ! https://t.co/9S7u0afOLk
— Emmanuel Macron (@EmmanuelMacron) August 8, 2021