- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!​​​​​

Íslenski hópurinn gengur inn á Ólympíuleikvanginn í München á setningarhátíðinni. Geir Hallsteinsson er fánaberi.
- Auglýsing -

Í dag 27. ágúst 2022 eru liðin 50 ár frá því að handknattleikslandsliðið tók þátt í setningarathöfn Ólympíuleikana í München 1972, með því að ganga inn á Ólympíuleikvanginn. Geir Hallsteinsson var fánaberi íslenska hópsins, sem var fjölmennur. Þátttakendur, þjálfarar, flokkstjórar og fararstjórar voru 41.

GREIN 1: ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

 Ég held hér áfram að rifja upp Ólympíusögu landsliðsins í annarri grein af þremur. Sú þriðja verður birt þriðjudaginn 30. ágúst.

Þeir voru sem tvíburarar; Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar og Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari.

Fljótlega eftir hina glæsilegu Spánarferð í mars, en í henni vann Íslands sér þátttökurétt á ÓL 1972, hófst lokaundirbúningur landsliðsins fyrir Ólympíuleikana í München. Eftir að Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari og Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar, kölluðu landsliðsmenn á sinn fund 12. apríl 1972, þar sem leikmenn urðu að svara eða nei um hvort að þeir væru tilbúnir að taka þátt í miklum undirbúningi – æfa til að byrja með þrisvar í viku, en síðan á hverju kvöldi. Allir þeir sem rætt var við voru tilbúnir að leggja hart að sér, enda ekki á hverjum degi sem tekið er þátt í Ólympíuleikum.

  
Hilmar bætti fjórum leikmönnum við landsliðshóp sinn; Þorsteini Björnssyni, Fram, markverði, Einari Magnússyni, Víkingi, Guðjóni Magnússyni, Víkingi og Sigurði Einarssyni, Fram, sem var lykilmaður hjá nýkrýndum meisturum Fram. Sigurður, sem var mikill baráttumaður, hafði ekki leikið landsleik síðan í HM í Frakklandi 1970. Þá sendi Hilmar Bjarna Jónssyni, Arhus KFUM, bréf til Danmerkur og bauð honum að æfa með landsliðinu. Bjarni afþakkaði gott boð.

Gunnsteinn Skúlason, fyrirliði landsliðsins, skorar af línu.

 Góður dráttur

 Dregið var í riðla á Ólympíuleikunum í München 22. apríl. Það var ljóst að róðurinn yrði erfiður, þar sem Ísland var í B-riðli með Austur-Þýskalandi, Tékkóslóvakíu og Túnis. Hilmar sagði að hér væri um erfiða mótherja að ræða, en möguleikarnir væru þó góðir gegn Tékkum og Túnismönnum. Ekki útilokað að komast í 8-liða úrslitin.

Aðrir riðlar voru þannig:
A-riðill: Danmörk, Svíþjóð, Sovétríkin og Pólland.
C-riðill: Rúmenía, Vestur-Þýskaland, Noregur og Spánn.
D-riðill: Júgóslavía, Ungverjaland, Japan og Bandaríkin. 

 Landsliðið æfði stíft og komu Bandaríkjamenn við á Íslandi á leið sinni í æfingaferð til Evrópu, léku tvo leiki í byrjun apríl og síðan komu þeir aftur og léku tvo leiki um miðjan júlí. Allir leikirnir unnust. Hilmar Björnsson lét línumenn sína spreyta sig í leikjum gegn Bandaríkjamönnum.

 Landsliðinu hafði verið boðið, eftir hina góðu framgöngu á Spáni, að taka þátt í mjög sterku sex þjóða móti í Júgóslavíu í júní. Það var hætt við að fara til Júgóslavíu eftir að ljóst var að Tékkóslóvakía yrði mótherjar Íslands á ÓL. Ástæðan fyrir því var að Tékkar áttu einnig að taka þátt í mótinu og því óþarfi að gefa þeim tækifæri til að kortleggja leik íslenska liðsins.

 HSÍ leitaði eftir öðrum leiðum til að fá landsleiki og var ákveðið að fara til Noregs og Vestur-Þýskalands í júlí.

Sigurbergur Sigsteinsson varð bæði Íslandsmeistari í handknattleik og knattspyrnu 1972. Hér skorar hann í leik gegn Svíum.

 Sigurbergur settur í „knattspyrnubann!“

 Á lokasprettinum í undirbúningnum fyrir ÓL tilkynnti HSÍ Sigurbergi Sigsteinssyni, sem var einn sterkasti miðvörður landsins í knattspyrnu og landsliðsmaður, að hann yrði að hætta að leika knattspyrnu með Fram á meðan lokaundirbúningi fyrir ÓL stóð. Það gerði Sigurbergur, en eftir ÓL í München, tók hann fram knattspyrnuskóna á nýjan leik og varð Íslandsmeistari með Fram í knattspyrnu, en hann varð einnig meistari í handknattleik með Fram.

 Hilmar velur sextán leikmenn

 Eftir leikina gegn Bandaríkjunum og fyrir ferðina til Noregs og Vestur-Þýskalands tilkynnti Hilmar hvaða sextán leikmenn færu í þessa æfingaferð og tækju þátt í ÓL í München. Landsliðshópurinn var skipaður þessum leikmönnum:

Stund milli stríða. Stórskyttunar Jón Hjaltalín Magnússon og Axel Axelsson sýndu stórleiki við taflborðið.
Markverðir:
Hjalti Einarsson, FH, 33 ára slökkviliðsmaður.
Birgir Finnbogason, FH, 24 ára kennari.
Ólafur Benediktsson, Val, 19 ára nemi.
Horna- og línumenn:
Gunnsteinn Skúlason, Val, 25 ára framkvæmdastjóri.
Sigurbergur Sigsteinsson, Fram, 24 ára íþróttakennari.
Björgvin Björgvinsson, Fram, 23 ára lögreglumaður.
Línumenn:
Stefán Gunnarsson, Val, 20 ára múrari.
Ágúst Ögmundsson, Val, 25 ára skrifstofumaður.
Stefán Jónsson, Haukum, 27 ára trésmiður.
Sigurður Einarsson, Fram, 29 ára skrifstofumaður.
Leikstjórnandi:
Geir Hallsteinsson, FH, 26 ára íþróttakennari.
Skyttur:
Axel Axelsson, Fram, 20 ára lögreglumaður.
Ólafur H. Jónsson, Val, 22 ára nemi.
Viðar Símonarson, FH, 27 ára íþróttakennari.
Gísli Blöndal, Val, 24 ára rafvirki.
Jón Hjaltalín Magnússon, 23 ára nemi.
* Ein breyting var á hópnum, sem lék á Spáni. Sigurður Einarsson tók sæti Sigfúsar Guðmundssonar,
 Víkingi.
Hjalti Einarsson markvörður FH og íslenska landsliðs. Hjalti var kjörinn Íþróttamaður ársins 1971.

 Mætti með sjóvettlinga

 Landsliðið fór í keppnisferð til Noregs og Vestur-Þýskalands í lok júlí og var fyrst leikið gegn Norðmönnum í Tönsberg 26. júlí. Uppselt var á leikinn; 900 áhorfendur. Það vakti mikla kátínu áhorfenda, þegar Hjalti Einarsson, markvörður, færði Paal Bye, markverði Noregs, stóra og mikla sjóvettlinga. Bye setti þá reyndar aldrei upp, enda voru engin vettlingatök viðhöfð í leiknum, sem var mjög harður, 14:14.

Geir Hallsteinsson sækir að marki Pólverja í München. Stefán Jónsson er inni á línunni.

 Ole Rimejorde, landsliðseinvaldur Norðmanna, sagði fyrir leik þjóðanna á Spáni, að það yrði að hafa góðar gætur á Geir Hallsteinssyni, sem væri leikmaður sem hefur „handleggi á kúluliðum!“ Geir, sem skoraði 5 mörk í leiknum, þar á meðal jöfnunarmark Íslands. Norðmenn reyndu að taka Geir úr umferð um tíma, en hættu við það, þar sem vörn þeirra opnaðist við það. Þeir höfðu í þess stað góðar gætur á Geir.

 * Ísland hafði leikið 13 leiki í röð án taps á árinu, unnið tíu leiki, gert fjögur jafntefli.

 Norðmenn unnu seinni leikinn, í Sandefjord, 14:12. Íslensku leikmennirnir skoruðu ekki nema eitt mark síðustu 15 mín. leiksins og það á síðustu sekúndunni. Þeir misstu leikinn á þessum tíma úr 11:9 í 11:14. Þeir léku geysilega sterkan varnarleik í fyrri hálfleik og átti Hjalti góðan leik á milli stanganna. Staðan var aðeins 5:5 í leikhléi. Vörnin var svo öflug um tíma, að það var sama hvaða aðferð norski þjálfarinn skipaði sínum mönnum að leika; þær strönduðu allar á vörninni. „Þetta er ekki hægt,“ kallaði besti leikmaður Noregs, Harald Tyrdal, til þjálfara síns. „Þeir taka allt!“

 Sóknarleikur íslenska liðsins var aftur á móti ekki nægilega góður. „Við höfum að undanförnu verið að byggja upp líkamsstyrk leikmanna og æfingar okkar hafa byggst upp á að ná úthaldi. Því gengur stirðlega að ná upp léttleika í sókninni, en hann á eftir að koma. Það er ástæðulaust að vera að auglýsa nýjungar í leik liðsins fyrr en á hólminn er komið á Ólympíuleikunum,“ sagði Hilmar landsliðsþjálfari.

 Stóðu í gólfþurrkun í Augsburg

 Frá Noregi var haldið til Vestur-Þýskalands og leiknir tveir leikir. Þeir töpuðust báðir – 10:20 í Schönhofen og 16:18 í Augsburg, þar sem Ísland átti að leika sinn fyrsta leik á ÓL. Sá galli var á nýrri höll í Augsburg að hún var ekki orðin vatnsheld. Leikmenn liðanna, ásamt dómurum, urðu að standa í gólfþurrkun fyrir leikinn!

Gunnsteinn Skúlason, fyrirliði, gefur nýliðanum Ólafi Benediktssyni, góð ráð við taflborðið. Betur sjá augu, en auga!

 Það kom fram í ferðinni til Noregs og Vestur-Þýskalands að Hilmar Björnsson varð að fínpússa ýmsa hluti í leik landsliðsins fyrir ÓL, bæði í vörn og sókn. Í fyrri leiknum gegn Þjóðverjum voru leikmenn íslenska liðsins oft sem áhorfendur. Mánuður var til stefnu; fyrir fyrsta leikinn – gegn Austur-Þjóðverjum 30. ágúst.

 NÆST:

 Landsliðið hélt til München 24. ágúst. Flogið var með vél Flugfélags Íslands til London og þaðan til München. Í þriðja og síðasta pistli mínum, 30. ágúst, um Ólympíuþátttöku landsliðsins segi ég frá sögulegri þátttöku landsliðsins, þar sem leikmenn töpuðu niður unnum leik gegn Tékkóslóvakíu og síðan komu vonbrigðin og mikið spennufall, sem varð leikmönnum dýrkeypt. 

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

GREIN 1: ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -