- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL Í 50 ÁR: ​​​​​„Létum Tékka hafa okkur út í tóma vitleysu!“

Ólympíuhópur Íslands í handknattleik í München 1972. Fremsta röð frá vinstri: Hjörleifur Þórðarson, landsliðsnefnd, Einar Þ. Mathiesen, flokksstjóri, Ólafur Benediktsson, Gunnsteinn Skúlason, Birgir Finnbogason, Björgvin Björgvinsson, Stefán Gunnarsson, Geir Hallsteinsson og Rúnar Bjarnason, varaformaður HSÍ. Önnur röð: Viðar Símonarson, Stefán Jónsson, Sigurður Einarsson, Sigurbergur Sigsteinsson, Hjalti Einarsson, Hilmar Björnsson, þjálfari, Axel Axelsson, Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar og Ágúst Ögmundsson. Í efstu röð eru Gísli Blöndal, Jón Hjaltalín Magnússon og Ólafur H. Jónsson.
- Auglýsing -

Í dag 30. ágúst eru liðin 50 ár síðan íslenska landsliðið í handknattleik lék sinn fyrsta leik á Ólympíuleikum, gegn Austur-Þýskalandi í Augsburg. Ég held hér áfram að rifja upp upphafið á Ólympíusögu landsliðsins í þriðja pistli mínum.

GREIN 1: ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

GREIN 2: ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!​​​​​


Það var spenna í lofti þegar landsliðshópurinn hélt til München að morgni fimmtudags 24. ágúst. Flogið var frá Keflavíkurflugvelli með Gullfaxa, flugvél Flugfélags Íslands; Icelandair. Flogið var til London og þaðan með flugvél frá Lufthansa til München. Þar var lent kl. 16 og haldið beint í ólympíuþorpið. Landsliðsmenn voru í sínu fínasta pússi, en ólympíuklæðnaður Íslendinga voru ljósir skór, ljósgráar buxur, vínrauð skyrta og kóngablátt bindi. Jakkar voru tvíhnepptir bláir með íslenska fánann á vinstra brjósti. Leikmenn báru hvítan hatt á höfði. Já, hér voru á ferð töffarar.

Ólympíufarar í fullum skrúða. Sigurður Einarsson, Stefán Gunnarsson, Ólafur H. Jónsson, Gunnsteinn Skúlason, Lára Sveinsdóttir, yngsti Ólympíukeppandi Íslands í München, 17 ára, og Hjalti Einarsson, sá elsti, 33 ára. Lára keppti í hástökki og var fyrst kvenna til að keppa fyrir hönd Íslands í frjálsíþróttum á Ólympíuleikum.

  Daginn eftir komuna til München var fánahylling í ólympíuþorpinu, þegar íslenski fáninn var dreginn að hún, eftir að Íslendingar gengu í skipulagðri röð að fánaborginni.

Fáni vor sem friðarmerki fara skaltu á undan nú… Geir Hallsteinsson er tilbúinn fyrir fánahyllingu í Ólympíuþorpinu.

  Æfingar hófust strax hjá landsliðinu, enda erfitt verkefni fyrir höndum; leikur gegn Austur-Þýskalandi í Sporthalle Augsburg miðvikudaginn 30. ágúst

  Setningarathöfnin fór fram á Ólympíuleikvanginum sunnudaginn 27. ágúst. Geir Hallsteinsson var fánaberi Íslendinga og gengu allir leikmenn landsliðsins inn á völlinn. Þeir höfðu farið ásamt öðrum keppendum frá Íslandi í gönguæfingu hjá Þorsteini Einarssyni, íþróttafulltrúa ríkisins, áður en haldið var til Vestur-Þýskalands.

 Landsliðið lék þrjá æfingaleiki á fyrstu dögunum í ólympíuþorpinu. Tapaði fyrir Japan 19:21, vann Spán 20:19 og tólf tímum síðar, á mánudagsmorgni, tapaðist leikur gegn Ungverjum, 21:25.

Ólympíuhópur Íslands í handknattleik í München 1972. Fremsta röð frá vinstri: Hjörleifur Þórðarson, landsliðsnefnd, Einar Þ. Mathiesen, flokksstjóri, Ólafur Benediktsson, Gunnsteinn Skúlason, Birgir Finnbogason, Björgvin Björgvinsson, Stefán Gunnarsson, Geir Hallsteinsson og Rúnar Bjarnason, varaformaður HSÍ. Önnur röð: Viðar Símonarson, Stefán Jónsson, Sigurður Einarsson, Sigurbergur Sigsteinsson, Hjalti Einarsson, Hilmar Björnsson, þjálfari, Axel Axelsson, Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar og Ágúst Ögmundsson. Í efstu röð eru Gísli Blöndal, Jón Hjaltalín Magnússon og Ólafur H. Jónsson.

 Gísli Blöndal missteig sig í leiknum gegn Spánverjum og tóku sig upp meiðsli sem hann hafði átt við. Gísli var þar með úr leik; ekki var kallaður inn varamaður fyrir hann. „Það var afar slæmt fyrir okkur að missa Gísla, sem hafði leikið eitt af lykilhlutverki í liðinu – í vörn og sókn,“ sagði Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, sem var ánægður með hóp sinn. „Við vorum með geysilega sterkt lið. Hópurinn var samstilltur og leikmennirnir ákveðnir að gefa allt sem þeir gátu til að ná árangri.“

 Tyrkneskur nuddari!

 Erfiðlega hafði gengið að fá nudd fyrir leikmenn, en fyrir atbeina Einars Þ. Mathiesen, flokksstjóra landsliðsins, tókst að ráða tyrkneskan nuddara, sem starfaði eftir þörfum frá 28. ágúst til 9. september. Menn gerðu góðlátt grín á þessu „brölti“ og sögðu að það vantaði aðeins „fljúgandi töfrateppi“ og glerpípu, til að umhverfi Tyrkjans væri fullkomið.

 Það var mikið rætt um að það væri afar slæmt að vera ekki með íslenskan sjúkraþjálfara í för, þegar farið væri í stórmót og á Ólympíuleika. Skrifað var um þetta vandamál í blöðum og það varð til þess að sjúkraþjálfari fór í fyrsta skipti með í ferð þegar landsliðið tók þátt í HM í Austur-Þýskalandi 1974. Það var til dæmis ekki fyrr en 1979 að sjúkraþjálfari fór með knattspyrnulandsliðinu til útlanda.

 Riðlarnir á ÓL í München
A-riðill: Danmörk, Svíþjóð, Sovétríkin og Pólland.
B-riðill: Ísland, Austur-Þýskaland, Tékkóslóvakía, Túnis.
C-riðill: Rúmenía, Vestur-Þýskaland, Noregur og Spánn.
D-riðill: Júgóslavía, Ungverjaland, Japan og Bandaríkin. 
* Tvær efstu þjóðirnar úr hverjum riðli komust í 8-liða úrslit. Leikið yrði í tveimur milliriðlum.
Sigurður Einarsson var á sínu þriðja stórmóti eins og Hjalti Einarsson. Þeir voru með á HM í Tékkóslóvakíu 1964 og HM í Frakklandi 1970.

Byrjuðu vel, en….

 Já, það var spenna í lofti þegar landsliðshópurinn hélt frá ólympíuþorpinu til Augsburg, sem var í 71 km fjarlægð, norð-vestan við München, til að leika gegn Austur-Þjóðverjum miðvikudaginn 30. ágúst.

 Strákarnir mættu ákveðnir til leiks og var fyrri hálfleikurinn einn sá besti sem íslenskt landslið hafði leikið; varnarleikurinn var stórkostlegur. Austur-Þjóðverjar voru yfir í hálfleik, 6:7. Í seinni hálfleiknum fór að síga á ógæfuhliðina. Á furðulegan hátt slepptu rúmensku dómararnir Carligeanu og Sidea að dæma er brotið var á Björgvini Björgvinssyni á línunni og heppnin var síðan ekki með Björgvini, þegar skot hans af línunni hafnaði á báðum stöngum þýska marksins. Þjóðverjar svöruðu með tveimur mörkum, 6:9. Vörn þýska liðsins var geysilega sterk og náðu leikmenn Íslands illa að útfæra leikkerfi sín. Þegar upp var staðið fögnuðu Austur-Þjóðverjar sigri, 16:11.

 „Þetta var að mörgu leyti ágætur leikur af okkar hálfu gegn sterku liði, sem lék öflugan varnarleik. Það var ákveðið fyrir leikinn að nota ekki öll leikkerfin sem við höfum verið að æfa. Sum ætlum við að eiga til góðs gegn Tékkum,“ sagði Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari.

  Mörk Íslands skoruðu: Geir Hallsteinsson 2, Ólafur H. Jónsson 2, Jón Hjaltalín Magnússon 2, Stefán Gunnarsson 2, Björgvin 1, Sigurbergur Sigsteinsson 1 og Sigurður Einarsson 1.

 * Axel Axelsson var hvíldur fyrir leikinn gegn Tékkum.

 * Tékkar unnu Túnismenn 25:7.

Rútan sem flutti landsliðshópinn á keppnisstaði, þótti lúxusvagn þá, en væri ekki boðleg í dag.

 Ólafur kallaður í lyfjapróf

 Eftir leik Íslands og Austur-Þýskalands kom stúlka til Ólafs H. Jónssonar og sagði: „Þú kemur með mér!“ Hún kom til að sækja Ólaf í lyfjapróf, en einn leikmaður úr hverju liði á ÓL, var kallaður í lyfjapróf eftir leiki. Ólafur, sem var hreinn, var fyrsti íslenski íþróttamaðurinn sem var tekinn í lyfjapróf á Ólympíuleikum og jafnframt fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem var tekinn í lyfjapróf á stórmóti.

 Töpuðu niður unnum leik

 Leikmenn Tékkóslóvakíu voru næstu mótherjar Íslendinga; í Dónárhöllinni í Ulm, 136 km frá München 1. september. Það varð svartur dagur í sögu íslenska landsliðsins, því að liðið missti niður unnin leik (18:15) í jafntefli, 19:19. Íslenska liðið lék mjög vel þar til 10 mín. voru til leiksloka, höfðu alltaf undirtökin. Hjalti Einarsson fór á kostum í markinu í fyrri hálfleik – varði þá m.a. tvö vítaköst, auk langskota og skota af línu. Axel Axelsson var yfirvegaður í sóknarleiknum og náði mjög góðri skotnýtingu, auk þess sem samvinna hans og Björgvins var stórkostleg. Ísland var yfir í leikhléi, 10:8.

 Tékkar breyttu bæði um varnar- og sóknarleikaðferð í seinni hálfleik. Þeir léku mjög framarlega í vörn og náðu að trufla sóknarleik Íslands. Tékkar náðu að jafna 15:15 um miðjan seinni hálfleik, en þá komu þrjú mörk frá Axel, Geir og Viðari Símonarsyni, 18:15. Tékkar skoruðu tvö mörk, 18:17, en Björgvin svarar, 19:17. Það var þá sem allt small í baklás – Tékkar fóru að leika maður gegn manni og náðu að rugla dómgreind íslensku leikmannana.

Hjalti var kominn í sóknina

 Mitt í öllum látunum var Hjalti kominn í sókn, en missti knöttinn er hann var kominn inn á línu og hugðist skora. Tékkar brunuðu fram og skoruðu 19:18. Síðan var í tvígang dæmt á Axel og honum vísað af leikvelli. Tékkar náðu að jafna, 19:19, og rétt fyrir leikslok náðu þeir hraðaupphlaupi, en heppnin var með Íslendingum – dæmdur var fótur á einn leikmann Tékka. Þýsku dómararnir, Falk og Rosmanith, flautuðu síðan leikinn af. Íslensku leikmennirnir sátu eftir með sárt ennið. Glæsilegur sigur virtist í höfn, en undir lokin máttu leikmenn þakka fyrir jafntefli.

 Mörkin skoruðu: Axel 5, Björgvin 5, Geir 3/2, Viðar 2, Ólafur H. Jónsson 2, Gunnsteinn Skúlason 1 og Jón Hjaltalín 1.

 * A-Þýskaland vann Túnis 21:9.

 „Spennan með ólíkindum“

 „Það var hreint út sagt sorglegt að missa leikinn niður gegn Tékkum. Við létum þá hafa okkur út í tóma vitleysu. Þegar við vorum yfir, 19:17, var ég einn og óvaldaður á línunni, en í öllum æsingnum var Hjalti markvörður kominn fram með knöttinn og reyndi sjálfur að skora, en var óheppinn að missa knöttinn,“ sagði Björgvin.

 „Ég veit, að ég hefði ekki átt að reyna þetta. Þegar ég var kominn á ferðina fram völlinn fannst mér að allir strákarnir væru valdaðir. Ég sá ekki Björgvin inni á línunni. Þegar ég ætlaði að skjóta, missti ég boltann, þar sem ég var ekki með klístur á fingrunum,“ sagði Hjalti.

  Sigurður Einarsson sagði að spennan á lokakaflanum gegn Tékkum hafi verið með ólíkindum. „Leikurinn var mikill baráttuleikur og hreinn úrslitaleikur um það hvort við eða Tékkar léku um efstu sætin. Spennan undir lokin var gífurleg – við vorum með undirtökin lengi framan af. Það sýnir kannski best hvað taugastríðið var mikið og spennan, að Hjalti rauk fram völlinn og reyndi að skora. Maður með þessa gífurlegu reynslu, eins og Hjalti, æstist upp. Hjalti var þekktur fyrir hvað hann var afar rólegur og yfirvegaður. Þetta atriði með Hjalta sýnir okkur hvað spennan var orðin mikil á lokakaflanum – hún var með ólíkindum. Þetta þekkja aðeins þeir sem hafa lent í svona baráttu; að komast áfram eða verða eftir!“ sagði Sigurður, sem hafði leikið marga spennuleikina og þá sérstaklega með Fram gegn FH (Hjalta)!

 „Þetta var svekkjandi. Við vorum svo nálægt átta liða úrslitum. Tékkarnir náðu að hleypa leiknum upp í hörku með því að leika maður gegn manni og leikurinn leystist upp í hálfgerð slagsmál. Við vorum ekki nægilega yfirvegaðir og fórum illa með mörg gullin tækifæri,“ sagði Sigurbergur.

 Glímdu við 22 marka sigur

 Eftir að Austur-Þjóðverjar höfðu lagt Tékka að velli 14:12 var ljóst að Íslendingar urðu að vinna Túnismenn með 22 marka mun, til að ná hagstæðari markatölu en Tékkar og tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum. Leikurinn gegn Túnis fór fram 3. september í Hohenstaufenhalle í Göppingen, 179 km frá München.

 Undir eðlilegum kringumstæðum hefði það ef til vill tekist að ná 22 marka mun, en pressan var of mikil á leikmönnum íslenska liðsins, eftir vonbrigðin gegn Tékkóslóvakíu. Þeir byrjðu þó mjög vel, komust í 10:1 eftir 18 mín. leik, en síðan kom slæmur kafli og staðan í leikhléi var 14:7. Lokatölur urðu ellefu marka sigur, 27:16. Það vantaði 11 mörk upp á!

 „Strákarnir okkar höfðu ekki taugar í svona markastríð. Ég efast um að nokkurt lið hérna hefði getað náð upp tuttugu og tveggja marka forskoti,“ sagði Hilmar, landsliðsþjálfari.

  Mörkin skoruðu: Jón Hjaltalín 7/2, Geir 6/2, Axel 4, Björgvin 3, Gunnsteinn 3, Viðar 2, Sigurbergur 1 og Ólafur H. Jónsson 1.

  Austur-Þjóðverjar urðu efstir í riðlinum með 6 stig, Tékkar fengu 3 stig og voru með 16 mörk í plús, Íslendingar fengu einnig 3 stig, en voru með 6 mörk í plús. Túnismenn fengu ekkert stig.

 Íslenska liðið fékk það hlutverk að leika um 9. til 12. sæti ásamt Noregi, Póllandi og Japan. Fyrirkomulagið var þannig að Ísland lék gegn Póllandi og Noregur gegn Japan. Sigurvegarar leikjanna léku síðan um 9. sætið, en tapliðin um 11. sætið.

Ólafur H. Jónsson skorar með langskoti gegn Pólverjum. Björgvin Björgvinsson (6) fylgist með.

  Mikið spennufall

 Þegar ljóst var að landsliðið náði ekki að komast í 8-liða úrslitin, varð mikið spennufall hjá leikmönnum, sem náðu sér alls ekki á strik í leikjum gegn Pólverjum og síðan Japönum í keppni um 9. til 12. sæti. Vonbrigðin voru mikil. Þegar leikið var gegn Pólverjum í Ólympíuhöllinni í München 7. september. Það vantaði alla stemningu í leik liðsins, baráttu og kraft. Leikmenn voru ragir við að skjóta á mark Pólverja, sem voru með mun lakara lið en A-Þjóðverjar og Tékkar. Leikmenn náðu sér ekki á strik og máttu þola tap, 17:20.

 Mörkin skoruðu: Jón Hjaltalín 6, Ólafur H. Jónsson 3, Axel 3, Gunnsteinn 2, Geir 2 og Björgvin 1.

 Þá var ljóst að leikið yrði um ellefta sætið í Ólympíuhöllinni gegn Japan 9. september, en Japanir töpuðu fyrir Norðmönnum 17:19.

 Japanir, sem fögnuðu sigri, 19:18, tóku Jón Hjaltalín úr umferð eftir að hann hafði skorað fimm mörk. Geir, sem hafði lítið látið að sér kveða á ÓL, skoraði 7/2 mörk. Aðrir sem skorðu voru Björgvin 2, Gunnsteinn, Sigurbergur, Ólafur H. Jónsson og Ágúst eitt hver.

Björgvin Björgvinsson skorar gegn Japan. Gunnsteinn Skúlason (2) fylgist með.

 „Uppákoman gegn Tékkum var niðurdrepandi fyrir okkur, því að við vorum búnir að leggja svo mikið á okkur til að undirbúa okkur sem best fyrir Ólympíuleikana. Ætluðum okkur í átta liða úrslitin. Mikil vinna varð að engu á örfáum sekúntum,“ sagði Sigurbergur Sigsteinsson.

 „Það er ljóst að leikurinn gegn Tékkum og vonbrigðin eftir hann braut leikmennina algjörlega niður,“ sagði Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar HSÍ.

Jón Hjaltalín Magnússon hrellti Bogdan í marki Pólverja.

  Bogdan í markinu!

 Pólverjinn Bogdan Kowalczyk, sem varð síðar landsliðsþjálfari Íslands 1983 til 1990, varði mark Póllands á ÓL. „Ég man alltaf eftir þrumuskotum Jóns Hjaltalín – þau voru illviðráðanleg,“ sagði Bogdan um þrumuskot Jóns, sem skoraði fimm mörk gegn Pólverjum og sjö mörk í leik gegn Japönum.

 Bogdan stjórnaði íslenska landsliðinu á tvennum Ólympíuleikum; Los Angeles 1984 og Seoul 1988.

 Tveir milliriðlar

 Tvö efstu lið í riðlunum fjórum komust í 8-liða úrslit, tvo milliriðla. Sigurvegararnir í riðlinum léku síðan um gullið, þjóðirnar sem urðu í öðru sæti, léku um bronsið.

RIÐILL 1: Austur-Þýskaland, Tékkóslóvakía, Sovétríkin og Svíþjóð.

 * Tékkar unnu bæði Sovétmenn og Svía, en A-Þjóðverjar, sem unnu Tékka í riðlakeppninni, töpuðu fyrir Sovétmönnum, en unnu Svía. Tékkar og Austur-Þjóðverjar fengu 4 stig, en Tékkar voru með 4 mörk í plús, en A-Þjóðverjar 2 mörk í plús.

RIÐILL 2: Júgóslavía 6 stig, Rúmenía 4, V-Þýskaland 2, Ungverjaland 0 stig.

Milan Lazarevic var einn besti leikmaður Júgóslavíu. Hér hefur hann leikið á varnarmenn Tékka í úrslitaleiknum og skorar eitt af sex mörkum sínum, 21:16. Hann var á meðal markahæstu manna á ÓL, skoraði 27 mörk.

  Júgóslavar voru sterkir

 Júgóslavar undir stjórn hins snjalla Vlado Stenzel voru búnir að taka við merkinu af Rúmenum sem besta handknattleiksþjóð heims. Rúmenar höfðu byggt leik sinn upp á vel útfærðum leikfléttum og áttu tvo til þrjá geysilega sterka leikmenn til að binda endahnútinn á vel útfærðan leik.

 Júgóslavar komu með 3-2-1 vörnina. Þeir komu með ákveðnar hreyfingar og hraðaupphlaup, sem varð til þess að leikurinn var miklu hraðari. Íslendingar fengu að kynnast því í desember  1971 í Laugardalshöllinni, þegar Júgóslavar tóku þá í bakaríið. Lið Júgóslavíu sem varð Ólympíumeistari var eitt það heilsteyptasta sem hafði komið fram. Júgóslavar unnu Tékka, sem Íslendingar voru óheppnir að vinna ekki, örugglega í úrslitaleik.

Lokaleikirnir um sæti fóru þannig á Ólympíuleikunum í München.
1.  Júgóslavía - Tékkóslóvakía, 21:16.
3.  Rúmenía - A-Þýskaland, 19:16.
5.  Sovétríkin - V-Þýskaland, 17:16.
7.  Svíþjóð - Ungverjaland, 19:18.
9.  Noregur - Pólland, 23:20.
11. Japan - Ísland, 19:18.
13. Danmörk - Bandaríkin, 19:18.
15. Spánn - Túnis, 23:20.
Æfingar fóru einnig fram í glampandi sól utanhúss í Ólympíuþorpinu. Ólafur Benediktsson, markvörður, til hægri, en lengst til vinstri er Axel Axelsson að snúa úr sókn.

Leikmenn Íslands

Hér kemur leikmannalisti Íslands á ÓL í München, leikir, mörk.

Markverðir:LeikirMörk
Birgir Finnbogason40
Hjalti Einarsson30
Ólafur Benediktsson30
Aðrir leikmenn:
Gunnsteinn Skúlason510fyrirliði.
Sigurbergur Sigsteinsson53
Björgvin Björgvinsson512
Geir Hallsteinsson520
Ólafur H. Jónsson59
Jón Hjaltalín Magnússon521
Viðar Símonarson44
Axel Axelsson412
Sigurður Einarsson41
Stefán Gunnarsson32
Ágúst Ögmundsson31
Stefán Jónsson20

* Gísli Blöndal lék ekki með vegna meiðsla.

 Hilmar til Svíþjóðar

 Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, sagði starfi sínu lausu sem þjálfari eftir Ólympíuleikana í München. Hilmar hafði ákveðið að fara til Svíþjóðar og stunda framhaldsnám við Íþróttarakennaraskólann í Stokkhólmi. Hilmar gerðist þá leikmaður með sænska meistaraliðinu Hellas.

Ég þakka fyrir mig að sinni og sendi boltann til Ívars Benediktssonar, handbolti.is.

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -