Norðmenn virðast til alls líklegir í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í París. Þeir unnu baráttusigur á Ungverjum í morgun, 26:25, eftir að hafa verið undir nánast allan leiktímann.
Alexandre Blonz skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu eftir hraðaupphlaup. Aðeins fimm sekúndum áður mistókst Ungverjum að tryggja sér sigurinn eftir að þeir unnu boltannn 12 sekúndum fyrir leikslok. Thorbjørn Bergerud markvörður var bjargvættur þegar hann varði skot Bence Imre eftir hraðaupphlaup. Bergerud var fljótur að koma boltanum í leik, rakleitt á Blonz sem innsiglaði sigurinn.
Ungverjar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11. Norska liðið, sem vann Frakka og Argentínumenn í tveimur fyrstu umferðum keppninnar, komust yfir í fyrsta sinn í síðari hálfleik, 24:23, þegar þrjár mínútur og 10 sekúndur voru til leiksloka.
Norðmenn hafa þar með fullt hús stiga í B-riðli eftir þrjá leiki. Þeir mæta Egyptum á föstudagskvöld. Grannþjóðirnar Danmörk og Noregur mætast í síðustu umferð riðlakeppninnar á sunnudaginn.
Mörk Noregs: Alexandre Blonz 9/2, Simen Ulstad Lyse 6, Sander Sagosen 3, Gabriel Ask Setterblom 3, Kristian Bjørnsen 2, Petter Ørverby 1, Tobias Grøndal 1, Harald Reinkind 1.
Varin skot: Torbjørn Bergerud 14, 37%.
Mörk Ungverjalands: Bence Banhidi 6, Richard Bodo 6, Nece Imre 6/3, Bendeguz Boka 2, Zoltán Szita 2, Mate Lekai 1, Zoran Ilic 1, Gergo Fazekas 1.
Varin skot: Kristof Palasics 10/1, 32%.
Leikjadagskrá.