- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Slóvenar lögðu granna sína

Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Slóvenar lögðu granna sína frá Króatíu, 31:29, í annarri umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í morgun og eru þar með komnir á blað í mótinu. Sigurinn var einstaklega sætur því þessar þjóðir hafa oft eldað grátt silfur á handknattleiksvellinum og Slóvenar fremur verið taldir litli bróðir í þeim efnum. Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13.

Leikmenn Dags Sigurðssonar í króatíska landsliðin byrjuðu leikinn afar vel og réðu lögum og lofum fyrstu 20 til 25 mínúturnar. Þeir voru iðulega með þriggja til fjögurra marka forskot. Vörn liðsins var öflug en sóknarleikur Slóvena var að sama skapi ekkert sérstakur. Það breyttist þegar á leið og Aleks Vlah bættist í sóknarleik Slóvena. Hann sprengdi upp vörn Króata hvað eftir annað. Eins var hornamaðurinn Blanc Janc, sem lék í skyttustöðunni hægra megin í dag, mjög kvikur og erfiður Krótötum. Janc skipti við Jure Dolenec sem byrjaði en ljóst er að sá síðarnefndi má muna sinn fífil fegri.

Með mikilli báráttu á lokakaflanum tókst Slóvenum að jafna metin fyrir hálfleik, 13:13. Ekki spillti fyrir að Króatar voru um skeið tveimur færri.

Framan af síðari hálfleik var leikurinn í járnum. Króatar voru yfir, 21:20, um miðjan hálfleikinn. Slóvenar náðu þá að skora fimm mörk í röð og komast yfir, 25:21. Á sama tíma varði Klemen Ferlin allt hvað af tók í slóvenska markinu. Króatar svöruðu með tveimur mörkum í röð. Þeir fengu síðan möguleika til að minnka muninn í eitt mark, 25:24, um sjö mínútum fyrir leikslok. Mario Sostaric skaut í stöng eftir hraðaupphlaup. Slóvenar svöruðu með þremur mörkum í röð og náðu fjögurra marka forskoti, 28:24. Eftir það tókst Króötum aldrei að ógna stöðu Slóvena.

Króatar mæta Þjóðverjum á miðvikudaginn. Slóvenar eiga þá leik gegn Svíum.

Mörk Slóveníu: Aleks Vlah 8, Blaz Janc 8, Tilen Kodrin 3, Borut Mackovsek 3, Domen Novak 3, Dean Bombac 2, Matej Gaber 2, Jure Dolenec 2/2.
Varin skot: Klemen Ferlin, 8/1, 32% – Urban Lesjak 5, 29%.

Mörk Króatíu: Ivan Martinovic 5, Mario Sostaric 5/2, Zvonmir Srna 5, TIn Lucin 4, Domagoj Duvnjak 3, Veron Nacinovic 3, Luka Cindric 2, Marin Sipic 1, Nikola Grahovac 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 10/2, 29% – Matej Mandic 0.

Leikjdagskrá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -