- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Stórbrotinn Wolff kom Þjóðverjum í fyrsta úrslitaleik ÓL í 20 ár

Leikmenn þýska landsliðsins fagna sigri á Spánverjum og sæti í úrslitaleik ÓL. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Alfreð Gíslason stýrir Þýskalandi í úrslitaleik handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum á sunnudaginn eftir að þýska landsliðið vann það spænska, 25:24, í undanúrslitum í Stade Pierre Mauroy Arena í Lille í dag.

Þetta verður fyrsti úrslitaleikurinn sem Þjóðverjar leika í stórkeppni undir stjórn Alfreðs. Um leið eru 20 ár liðin síðan Þýskaland lék síðast til úrslita og 40 ár frá úrslitaleiknum á undan en það er einu úrslitaleikir þýska karlalandsliðsins eftir að byrjað var að keppa í handknattleik innanhúss á Ólympíuleikunum 1972. Hvorugan úrslitaleikinn til þessa hefur þýska liðið unnið.

Danir eða Slóvenar verða andstæðingar Þjóðverja í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Slóvenar mæta Dönum í hinni viðureign undanúrslita í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Fór hamförum

Stórbrotin frammistaða Andreas Wolff markvarðar var lykillinn að sigri Þjóðverja í leiknum við Spánverja. Wolff var með spænsku leikmennina nánast í vasanum og sá til þess að þeir skoruðu ekki nema 24 mörk. Alls varði Wolff 22 skot, 49% hlutfallsmarkvarsla, sem er hreint fáheyrð tölfræði í leik tveggja jafn sterkra liða.

Sebastian Heymann og Andreas Wolff markvörður. Ljósmynd/EPA

Voru tvisvar yfir

Þýska liðið var með yfirhöndina lengst af. All gott forskot framan af fyrri hálfleik en Spánverjum tókst að jafna áður en leiktíminn var úti, 12:12. Spáni tókst að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum níu og hálfri mínútu fyrir leikslok, 23:22, og aftur 24:23, þegar um átta mínútur voru til leiksloka.

Wolff að verja einu sinni sem oftar frá Javier Rodriguez. Ljósmynd/EPA

Þýska liðið skoraði tvö síðustu mörkin. Lukas Mertens jafnaði úr vinstra horni eftir sendingu Sebastians Heymanns hálfri fjórðu mínútu fyrir leikslok. Juri Knorr skoraði 25. markið, sem reyndist sigurmarkið, þegar tvær mínútur og 50 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Wolff lokaði markinu sem varð til þess að Spánverjum féll allur ketill í eld á síðustu 13 sekúndunum sem þeir höfðu til að jafna metin. Komu þeir ekki nothæfu skoti á markið né höfðu burði til að stilla upp í almennilega sókn.

Þetta var annar sigur þýska landsliðsins á því spænska á leiknum. Liðin mættust einnig í fjórðu og næst síðustu umferð riðlakeppninnar. Þjóðverjar unnu þá viðureign einnig, 33:31.

Mörk Þýskalands: Renars Unsins 6, Juri Knorr 4, Johannes Golla 4, Julian Köster 3, Christoph Steinert 3, Sebastian Heymann 2, Luca Witzke 1, Kai Häfner 1, Lukas Mertens 1.
Varin skot: Andreas Wolff 22/1, 49%.

Mörk Spánar: Daniel Fernandez 5, Ian Tarrafeta 4, Agustin Casado 4, Aleix Gómez 3, Abel Serdio 2, Imanol Garciandia 2, Kauldi Odriozola 2, Alex Dujshebaev 1, Javier Rodriguez 1.
Varin skot: Gonzalo Perez de Vargas 10, 31% – Rodrigo Corrales 2, 40%.

ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -