- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Töpuðu Slóvenar viljandi? Vildu ekki endurtaka mistökin frá Ríó

Uros Zorman þjálfari slóvenska karlalandsliðsins í handknattleik. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Uros Zorman þjálfari slóvenska karlalandsliðsins í handknattleik gaf sterklega í skyn eftir sjö marka tap fyrir þýska landsliðinu í lokaumferð riðlakeppni Ólympíuleikanna í gær að leikmenn hans hefðu ekki lagt sig fram um að vinna leikinn. Þeir hafi e.t.v. tapað leiknum viljandi eða a.m.k. eki haft ríka löngun til þess að vinna.

Vildum vera skynsamari

„Við vildum ekki gera sömu mistök og í Ríó 2016 þegar við mættum Dönum í átta liða úrslitum, liði sem við áttum ekki nema eins prósents möguleika á að vinna,“ sagði Zorman eftir leikinn við Þjóðverja í gær og þýskir fjölmiðlar vitna til í morgun. „Að þessu sinni vildum við vera skynsamari,“ bætti Zorman við.

Slóvenar mæta Norðmönnum í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna á miðvikudaginn. Zorman og félagar telja sig greinilega eiga meiri möguleika gegn Noregi en gegn Frökkum sem hefði orðið niðurstaðan ef Slóvenar hefðu lagt Þjóðverja og orðið efstir í riðlinum.

Zorman sparaði nokkra burðarása landsliðsins í fyrri hálfleik í leiknum við Þjóðverja. Hann sagði það væri samt vart gagnrýnivert því þýska liðið hafi einnig sparað krafta Renars Uscins og Johannes Golla sem mikið hefur mætt á.

Höfum okkar markmið

„Ég veit að við munum sæta gagnrýni fyrir framgöngu okkar en höfum ekkert til að skammast okkar fyrir. Við höfum okkar markmið á leikunum og fórum rækilega yfir möguleikana fyrir viðureignina,“ sagði Zorman. „Hinsvegar fer enginn í leik á stórmóti með það að markmiði að tapa. Svoleiðis getur snúist í höndum manna.“

Undarleg endalok á EM 2012

Margir fylgismenn íslenska karlalandsliðsins muna e.t.v. eftir jafnteflisleik við Slóvena, 32:32, í riðlakeppni EM 2012 í Serbíu. Eftir að Slóvenar höfðu haft tögl og hagldir allan leikinn þá gáfu þeir að því er virtist viljandi eftir í lokin og íslenska landsliðið skoraði þrjú síðustu mörkin. Þeir misstu móðinn við varnarleikinn og brást boglistin í opnum færum með þeim afleiðingum að íslenska landsliðið jafnaði metin áður en leiktíminn var úti.

Þessar æfingar Slóvena á EM 2012 skiluðu þeim áfram í milliriðil með þrjú stig og greiddi einnig leið íslenska landsliðsins áfram með eitt stig. Norðmenn sátu þá eftir með sárt ennið og fóru heim og hugsuðu Slóvenum þegjandi þörfina.

Ef Slóvenar hefðu unnið íslenska liðið hefðu Slóvenar farið áfram með eitt stig í milliriðil, Noregur þrjú stig en íslenska liðið lokið keppni.

Zorman var einn burðarása landsliðsliðs Slóvena á EM 2012.

ÓL: Leikir átta liða úrslita karla – leiktímar og undanúrslit

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -