Ein besta handknattleikskona heims um þessar mundir, ef ekki sú besta, Henny Reistad, leikur ekki með Evrópumeisturum Noregs í upphafsleiknum á Ólympíuleikunum í París í kvöld. Noregur mætir þá Svíþjóð. Reistad var valin handknattleikskona ársins 2023 af Alþjóða handknattleikssambandinu.
Reistad meiddist á hægri ökkla í vináttuleik gegn Frökkum snemma í þessum mánuði. Hún hefur ekki jafnað sig nægilega vel til þess að geta verið með í kvöld, eftir því sem Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs segir í VG.
Fjarvera Reistad er högg fyrir norska liðið en þó ekki óvænt. Auk þess að vera öflug í sókninni þá er Reistad framúrskarandi varnarkona.
Ekki teflt á tvær hættur
„Við teflum ekki á tvær hættur með Henny,“ segir Þórir í samtali við VG. „Ákvörðun okkar er tekin með hagsmuni íþróttamannsins að leiðarljósi og hvað er okkur fyrir bestu þegar til lengri tíma er litið á Ólympíuleikunum,“ segir Þórir ennfremur. Hann kallaði á Thale Rushfeldt Deila til hlaupa í skarðið fyrir Reistad í 14 kvenna leikmannhópi sem tekur þátt í leiknum við Svía í kvöld.
Leikur Noregs og Svíþjóðar hefst klukkan 19 og verður m.a. sendur út á vegum RÚV.
Sjá einnig: ÓL24: handbolti kvenna, leikir, úrslit, staðan