Hafnfirðingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson náði þeim áfanga í gærkvöld að skora sitt 1200. mark fyrir sænska handknattleiksliðið IFK Kristianstad í sigurleik liðsins á Helsingborg á heimavelli, 28:27. Markið var eitt þriggja sem Ólafur Andrés skoraði í leiknum og með því kom hann liðinu yfir, 23:22. Hann átti einnig stoðsendingu á línumanninn Adam Nyfjäll sem tryggði Kristianstad sigurinn í leiknum á síðustu sekúndu. Það var sjöunda stoðsending Ólafs í leiknum. Kristianstad er efst í sænsku úrvalsdeildinni með 10 stig eftir fimm leiki.
Ólafur Andrés, sem hefur átt sæti í íslenska landsliðinu í rúman áratug, hefur leikið með IFK Kristiandstad frá 2015 og hefur lengst af verið fyrirliði. Ólafur Andrés lék einnig með liðinu frá 2012 til 2014 áður en hann reyndi fyrir sér um skeið í Þýskalandi.