Ég hitti þýskan blaðamann, sem sat við hliðina á mér á leik Wuppertal og Bad Schwartau 22. mars 1997, og aftur tveimur mánuðum síðar í Kumamoto í Japan, þar sem við fylgdumst með heimsmeistarakeppninni. Við ræddum þá um Ólaf, Dag, Viggó og Wuppertal-liðið. Hann sagði að Ólafur yrði ekki lengi hjá Wuppertal. „Ólafur er of góður fyrir liðið. Hann fer til stærra liðs.“ Það varð raunin. Ólafur lék aðeins eitt tímabil með Wuppertal í „Bundesligunni.“ Leið hans lá til Magdeburgar, þar sem forráðamenn félagsins voru ákveðnir að koma upp öflugu liði í austurhluta Þýskalands.
Viggó Sigurðsson ákvað að styrkja lið sitt í vörn og sókn fyrir slaginn, með því að fá Geir Sveinsson, fyrirliða landsliðsins, til liðs við sig.
Wuppertal var sannkallað spútniklið á fyrsta tímabili sínu í „Bundesligunni“ 1997-1998 – varð í áttunda sæti; fyrir ofan fræg lið eins og Grosswallstadt, Essen, Dankersen og Gummersbach. Það vakti geysilega athygli í byrjun tímabilsins þegar Wuppertal skellti meistaraliðinu Kiel fyrir framan 7.250 áhorfendur í Kiel; uppselt! 31:28. Dagur handarbrotnaði í leiknum; bátsbein á hægri hendi gaf sig. Dagur, sem hafði verið besti leikmaður Wuppertal og skorað 6 mörk, var frá keppni í fjóra mánuði. Ólafur, sem átti einnig stórleik, skoraði 8 mörk, Stig Rasch 8, Filippow 5, Geir þrjú mörk og fiskaði nokkur vítaköst.
Wuppertal endurtók leikinn á heimavelli, vann Kiel 24:18.
8 Íslendingar í „Bundesligunni“
* Julian Róbert Duranona, KA, gerðist leikmaður með Eisenach 1997.
* Konráð Olavson, Stjörnunni, fór á ný til Þýskalands 1997-1998; gerðist leikmaður með Niederwürzbach, sem komst í bikarúrslit, en tapaði fyrir Kiel 15:30.
* Júlíus Jónasson fór frá Gummersbach til St. Gallen í Sviss 1997.
* Héðinn Gilsson, Fredenbeck, fingurbrotnaði í byrjun 1997-1998. Héðinn fór til Dormagen 17. desember 1997.
* Róbert Sighvatsson var þar fyrir.
* Patrekur Jóhannesson, sem gerðist leikmaður Essen 1996, skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Essen 13. janúar 1998.
Þrjú önnur lið höfðu áhuga að fá Patta til sín; Dankersen, Wuppertal og Bad Schawrtau, sem Sigurður Bjarnason lék með.
* Þröstur Helgason var í herbúðum Wuppertal og lék einn leik.
Ólafur í hópi þeirra bestu
Eftir keppnistímabilið 1997-1998 var Ólafur Stefánsson, Wuppertal, kominn í hóp bestu handknattleiksmanna Þýskalands að mati sérfræðinga Handball Magazin; hafnaði í fjórða sæti í landsliðsgæðaflokki á listanum yfir vinstrihandarskyttur. Magnús Sigurðsson, Willstätt, var í hópi bestu vinstrihandarmanna í 2. deild. Dagur Sigurðsson, Wuppertal, var í sjötta sæti á listanum yfir leikstjórnendur; var í deildargæðaflokki. Julian Róbert Dunanona, Eisenach, var í sjötta sæti á listanum yfir hægrihandarskyttur.
* Það brutust út mikil fagnaðarlæti í íþróttahöllinni í Wuppertal 7. febrúar 1998 þegar tilkynnt var fyrir leik gegn Gummersbach að Viggó Sigurðsson verði áfram þjálfari liðsins; væri búinn að skrifa undir tveggja ára samning. Þetta hafði góð áhrif á „spútniklið“ Wuppertal, sem vann leikinn 26:19.
„Umbi“ í stóru hlutverki
Þjóðverjinn Wolfgang Gütschow var orðinn umboðsmaður flestra Íslendinga, sem leituðu til Þýskalands. Einnig leikmanna og þjálfara frá Norðurlöndum, Frakklandi og Rússlandi, en 70 leikmenn og þjálfarar í Þýskalandi 1998-1999 voru á hans snærum. Gütschow stofnaði umboðsskrifstofu í Zürich í Sviss 1993, er hann var 33 ára. Hann byrjaði að aðstoða Rússa 1992 þegar Sovétríkin liðu undir lok og varð þá varaformaður og framkvæmdastjóri rússneska handknattleikssambandsins.
Valdimar til Wuppertal
Þegar Ólafur Stefánsson ákvað að fara til Magdeburgar, þá fékk Viggó Sigurðsson, þjálfari Wuppertal, Valdimar Grímsson til liðs við sig frá Stjörnunni fyrir keppnistímabilið 1998-1999. Wuppertal tefldi þá fram tveimur mjög fljótum hornamönnum, Valdimar og Dimítri Filippow. Þeir voru báðir afar fljótir og snjallir hraðaupphlaupsmenn. Viggó var þekktur fyrir að vera með fjölbreytt hraðaupphlaup, þannig að þeir nutu sín á sprettinum.
Þegar ljóst var að Ólafur færi til Magdeburg, var um tíma möguleiki á að Dagur skipti einnig um félag. Essen fundaði með Degi, sem ákvað að framlengja samning sinn við Wuppertal og leika áfram undir stjórn Viggós.
* Dagur og Geir voru áfram í herbúðum Wuppertal.
* Duranona lék áfram með Eisenach
* Páll Þórólfsson, Aftureldingu, gekk til liðs við Essen, þar sem Patrekur Jóhannesson var í stóru hlutverki.
* Sigurður Bjarnason var hjá Bad Schwartau.
* Alfreð Gíslason var þjálfari Hameln.
Alls voru 77 erlendir leikmenn, frá 21 þjóð, í Bundesligunni. Í deildinni voru 16 lið, en það átti að fjölga þeim um tvö fyrir keppnistímabilið 1999-2000 og upp í tuttugu tímabilið 2000-2001.
Sjö Íslendingar léku í 2. deild. Daði Hafþórsson, Fram, gerði tveggja ára samning við Dormagen, þar sem fyrir voru Héðinn og Róbert. Magnús Sigurðsson og Gústaf Bjarnason voru hjá Willstätt og Rúnar Sigtryggsson gerðist leikmaður með Göppingen.
Jason Ólafsson, Aftureldingu, gekk til liðs við 2. deildarliðið Dessauer sumarið 1998, en var ekki lengi í herbúðum liðsins. Hann varð fyrir því óhappi að blindast á vinstri auga í leik í nóvember og varð að hætta handknattleik.
Haraldur Þorvarðarson, Fram, var í herbúðum HSV Düsseldorf í 2. deild 1998-1999. Hann fór síðan til Stralsunder.
Alfreð mætir til leiks – Finnur féll á lyfjaprófi
Alfreð Gíslason gerðist þjálfari hjá Hameln fyrir keppnistímabilið 1997-1998 í „Bundesligunni“ og var strax ljóst að liðið myndi lenda í hremmingum og fallbaráttu. Varnarleikur liðsins var ekki góður, þannig að Alfreð fékk varnarmanninn sterka Finn Jóhannsson, Val, til liðs við sig í desember og batt Finnur vörnina vel saman á æfingamóti í Hollandi um jólin 1997. Vörnin varð sterkari með Finni og fagnaði Hameln sigrum á Gummersbach og Essen, sem voru einnig í fallbaráttu.
Svo kom sprengjan! þegar þýskir fjölmiðlar fóru að velta því fyrir sér hvort að Finnur væri löglegur, þar sem hann væri í keppnisbanni á Íslandi. Hafði fallið á lyfjaprófi á bikarmóti í frjálsíþróttum í ágúst 1996 og ÍSÍ hafði útilokað hann frá þátttöku í öllum íþróttamótum á vegum sérsambanda ÍSÍ í 24 mánuði, frá 9. september 1996.
Eftir að hafa ráðfært sig við lögfróða menn veitti HSÍ Finni leikheimild, því að túlka mættu dómsorð þannig að bannið ætti aðeins við á Íslandi. Finnur hafði einnig fengið leikheimild frá þýska handknattleikssambandinu og Alþjóða handknattleikssambandinu.
Þýska stórblaðið Bild sagði 20. janúar að ákvörðun Hameln um að láta Finn leika væri heimskuleg og félagið ætti í hættu að missa stigin fjögur sem það vann þegar Finnur lék með.
HSÍ ákvað að kanna málið betur; hvort Finnur hafi aðeins verið í banni á Íslandi. Evrópska handknattleikssambandið, EHF, ógilti leikheimild Finns og í kjölfarið ákvað þýska sambandið að taka fjögur stig af Hameln.
Héraðsdómstóll þýska handknattleikssambandið úrskurðaði að Hameln héldi stigunum fjórum. Þýska sambandið áfrýjaði dómnum. Málið var tekið fyrir í æðsta dómstigi og féll þar sá dómur; að stigin fjögur yrði tekin af Hameln. Ekki var hægt að áfrýja þeim dómi. Lokaslagurinn var Hameln erfiður, liðið féll úr „Bundesligunni.“
Alfreð stjórnaði Hameln í 2. deild 1998-1999, en á miðju tímabilinu ákvað hann að taka tilboði frá Magdeburg og fara til liðsins þegar samningur hans rynni út í maí 1999.
Alfreð var leystur frá störfum áður en samningur hans rann út. Hameln lék við Willstätt, sem Gústaf Bjarnason og Magnús Sigurðsson léku með, um sæti í „Bundesligunni“. Fyrri leikurinn fór fram í Hameln og lauk með sigri gestanna, 27:24. Alfreð var sagt upp eftir leikinn og sagði blaðið Handball Woche að Alfreð hafi nánast verið rekinn í sturtu. Frétt blaðsins vakti mikla athygli, en ljóst var að forráðamenn liðsins voru með uppsögnina tilbúna ef Hameln tapaði.
Frank Wahl stjórnaði Hameln í seinni leiknum, en það dugði ekki; Willstätt vann 24:21 og tryggði sér sæti í „Bundesligunni.“ „Ég hef sjaldan upplifað önnur eins fagnaðrlæti. Það var eins og við hefðum orðið heimsmeistarar,“ sagði Gústaf Bjarnason.
Hameln lék síðan við Schutterwald um sæti í „Bundesligunni“ og tapaði báðum leikjum; heima 18:23 og úti 16:21.
Íslendingum fjölgaði
Það var ljóst að Íslendingum fjölgaði í „Bundesligunni“ 1999-2000.
* Gústaf og Magnús komu upp með Willstätt.
* Ólafur Stefánsson og Alfreð Gíslason voru hjá Magdeburg.
* Patrekur Jóhannesson og Páll Þórólfsson voru hjá Essen.
* Dagur Sigurðsson, Valdimar Grímsson og Heiðmar Felixson voru hjá Wuppertal. Þaðan voru farnir heim Viggó Sigurðsson, til að þjálfa FH og Geir Sveinsson til að þjálfa Val.
* Héðinn Gilsson, Róbert Sighvatsson og Daði Hafþórsson voru í herbúðum Dormagen, þar sem Guðmundur Þórður Guðmundsson var orðinn þjálfari.
* Julian Robert Duranona var hjá Eisenach
* Guðmundur Hrafnkelsson, Val, gerðist leikmaður með Nordhorn og var fyrsti íslenski markvörðurinn til að spreyta sig á milli stanganna í Þýskalandi.
* Sigurður Bjarnason gerðist leikmaður með Dutenhofen, sem breytti síðan um nafn; Wetzlar.
Stutt á milli hláturs og gráts
Það getur verið stutt á milli hláturs og gráts. Það fengu stuðningsmenn Wuppertal að upplifa. Það brutust út mikil fagnaðarlæti í íþróttahöllinni í Wuppertal 7. febrúar 1998 þegar tilkynnt var fyrir leik gegn Gummersbach að Viggó Sigurðsson verði áfram þjálfari liðsins; væri búinn að skrifa undir tveggja ára samning. Þetta hafði góð áhrif á „spútniklið“ Wuppertal, sem vann leikinn 26:19.
Það vakti mikla athygli í Þýskalandi þegar Viggó var leystur frá störfum 25. janúar 1999, en liðinu hafði gengið illa í byrjun ársins.
Þýska blaðið Handball Woche fjallaði mikið um málið. Viggó hafði kvartað yfir því að fá ekki reyndan leikmann til að fylla skarð Ólafs Stefánssonar. Viggó var samningsbundinn Wuppertal til 30. júní 2000, þannig að hann var á launum. Forráðamenn liðsins gerðu allt til að klekkja á Viggó, til að losna við að greiða honum samin laun; reyndu að þvinga Viggó til að gera starfslokasamning. Þeir hættu að greiða honum laun, þrátt fyrir að hafa tapað máli fyrir dómstólum í Wuppertal. Sögðu að Viggó hafi hafnað atvinnutilboði frá Gummersbach, til að skaða Wuppertal. Viggó gaf ekkert eftir og vann aftur fullnaðarsigur gegn Wuppertal fyrir dómstólum. Málið vakti mikla athygli í Þýskalandi. Flestir stuðningsmenn liðsins voru á bandi Viggós, sem var vinsæll. Meðaltal áhorfenda á leikjum, féll úr 2.600 í 800 á heimaleikjum.
Þegar Viggó var leystur frá störfum, léku þrír Íslendingar með Wuppertal, Dagur, Geir og Valdimar. „Þó að ég sé farinn verða þeir að halda áfram að standa sig vel. Þeir eru atvinnumenn, sem leika undir merkjum Wuppertal,“ sagði Viggó við Morgunblaðið.
Þess má geta að forráðamenn liðsins höfðu sett út á að Viggó hafi fengið Valdimar til liðsins. Viggó var ekki ánægður með það og benti á að Valdimar hafi sjö sinnum verið valinn til að leika með heimsliðinu. Það eitt sýndi styrk hans. „Aftur á móti hafa forráðamennirnir ekki mikið vit á því sem fer fram inn á vellinum.“
Viggó hafði rétt fyrir sér, eins og svo oft áður. Þegar keppnistímabilið 1998-1999 var gert upp hjá Handball Magazin, var Valdi talinn næst besti hægri hornamaðurinn í „Bundesligunni“, í alþjóðlegum gæðaflokki. Ólafur Stefánsson var í sjötta sæti yfir vinstrihandarskyttur og Duranona talin sjötta besta rétthenda skyttan. Sigurður Bjarnason var þar í fjórtánda sæti. Dagur var í ellefta sæti yfir leikstjórnendur og Filippow var í fjórða sæti yfir vinstri hornamenn, þannig að hornamenn Wuppertal voru sterkir.
Geir fór frá Wuppertal, en Dagur og Valdimar léku eitt keppnistímabil til viðbótar; 1999-2000. Þá bættist Heiðmar Felixson, KA, við. Valdimar fór til Íslands eftir tímabilið og Dagur hélt til Hiroshima Japans – gerði tveggja ára samning. Dagur fékk einnig tilboð frá Grosswallstadt, sem hann hafnaði.
Heiðmar var þá einn eftir og lék með Wuppertal sem féll 2001. Það er í síðasta skipti sem Wuppertal hefur leikið í „Bundesligunni.“ Þá var búið að leggja uppbyggingu Viggós í rúst. Þess má geta að Stefan Schöne, leikmaður Wuppertal, sem tók óvænt við starfi Viggós í janúar 1999, var látinn taka poka sinn í febrúar 2000.
Guðmundur Þórður leystur frá störfum
Viggó var ekki eini þjálfarinn, sem tók poka sinn á þessum árum. Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Fram, var ráðinn sem þjálfari hjá Íslendingaliðinu Dormagen 1999. Hans starf var fyrst sem aðstoðarþjálfari Peter Pysall og að sjá um þjálfun yngri liða hjá Dormagen, en Héðinn Gilsson, Róbert Sighvatsson og Daði Hafþórsson léku með liðinu, en Héðinn hélt heim eftir keppnistímabilið. Guðmundur tók síðan alfarið við þjálfun liðsins þar til hann var leystur frá störfum 7. mars 2001. Hann átti þá eftir eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Dormagen.
Patrekur í langt bann!
Patrekur Jóhannesson lék sjö tímabil með Essen í „Bundesligunni“; fram til 2003, að hann fór til Bidasoa á Spáni. Patti fékk tvisvar félagsskap frá Íslandi. Páll Þórólfsson Fram/Afturelding lék með Essen tvö tímabil, 1998-2000, og Guðjón Valur Sigurðsson, Grótta/KA, lék við hlið Patreks tvö tímabil; 2001-2003.
Patrekur meiddist einu sinni alvarlega er hann var hjá Essen. Það var um miðjan desember 1998, er krossband í hné slitnaði í leik gegn Nettelsted. „Ég kem sterkur til leiks næsta tímabil,“ sagði Patti. Patrekur meiddist á sama hné í ágúst 1997 og var þá frá keppni í sex vikur. „Ég verð lengur að jafna mig núna, um sex mánuði.“
Kveðjuleikur Patreks með Essen; gegn Flensburg, var vægast sagt sögulegur. Patti lét skapið hlaupa með sig í gönur, er hann hrækti í átt að öðrum dómara leiksins.
Patrekur var dæmdur í sex mánaða bann og félagsskipti hans til Bidasoa voru í hættu. Hann átti að vera kominn til Spánar 1. júlí, en þýska sambandið ætlaði ekki að skrifa undir félagaskipti fyrr en að banninu loknu, 24. nóvember 2003.
Patrekur höfðaði mál gegn þýska sambandinu fyrir þýska vinnuréttadómstólnum, sem úrskurðaði Patreki í vil í byrjun júlí. Þýska sambandið gaf sig ekki og ætlaði að hunsa niðurstöðuna. Þá kærði lögfræðingur Patreks málið til Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Sú ákvörðun varð til þess að þýska sambandið samþykkti félagaskipti Patreks til Bidasoa um miðjan ágúst.
Þetta voru síðustu skref Patta í þýskum handknattleik, en hann átti eftir að koma við sögu á Spáni, í Austurríki, Danmörku og á Íslandi.
Ólafur og Alfreð vinsælir
Ólafur Stefánsson var strax geysilega vinsæll hjá stuðningsmönnum Magdeburgar þegar hann mætti á svæðið 1998. Þá átti Alfreð Gíslason, sem var þekktur keppnis- og leikskipulagsmaður, eftir að vinna hug og hjörtu borgarbúa. Hann byrjaði strax; áður en hann tók formlega við liðinu, að kalla til liðs við sig sterka leikmenn, til að púsla saman sterku liði. Magdeburg veitti Kiel og Flensburg-Handewitt harða keppni á fyrsta keppnistímabili Alfreðs í „Bundesligunni.“ Kiel varð meistari á betri markamun en Flensburg, en bæði liðin fengu 52 stig. Magdeburg varð í þriðja sæti, með 49 stig.
Stóra stundin rann síðan upp keppnistímabilið 2000-2001, þegar Magdeburg varð Þýskalandsmeistari í fyrsta skipti, með því að leggja Flensburg í hreinum úrslitaleik í síðustu umferðinni; en fyrir umferðina var Flensburg með 58 stig, Magdeburg 57 og Lemgo 56.
Leikmenn Magdeburgar höfðu heldur betur hitað upp fyrir úrslitarimmuna í Magdeburg 20. maí. Þeir fóru frægðarferð til Króatíu, þar sem þeir náðu því ótrúlega í síðari úrslitaleiknum í EHF-keppninni gegn Metkovic Jambo; eftir að hafa rétt marið sigur í Magdeburg, 23:22. Það reiknuðu allir með sigri Jambo, sem hafði ekki tapað leik á heimavelli í þrjú ár. Lærisveinar Alfreðs léku frábæran varnarleik; skelltu í lás og unnu 28:18. Gífurlegur fögnuður var í Magdeburg þegar leikmenn komu heim með Evrópubikarinn!
Það voru átta þúsund áhorfendur sem fylltu höllina í Magdeburg þegar Magdeburg og Flensburg mættust. Þá var leikurinn sýndur á stóru tjaldi á Ráðhússtorginu, þar sem 20 þúsund borgarbúar fylgdust með leiknum, sem Magdeburg varð að vinna til að verða meistari. Taugaspennan var mikil fyrir leikinn hjá leikmönnum liðanna, en leikmenn Magdeburg voru ákveðnari og sterkari. Þar fór fremstur í flokki Ólafur, sem skoraði 9 mörk. Eftir leikinn var Ólafur útnefndur leikmaður ársins hjá liðinu.
Ólafur var Þýskalandsmeistari í fyrsta skipti, en Alfreð hafði tvisvar orðið meistari sem leikmaður með Essen, 1985 og og 1986.
Þýska tímaritið Handball Magazin útnefndi Ólaf besta handknattleiksmann Þýskalands 2000-2001, en það voru þjálfarar og fyrirliðar liðanna, ásamt landsliðsþjálfara, sem tóku þátt í valinu. Þjálfararnir voru 21 og varð Ólafur í efsta sæti hjá ellefu.
Blaðið útnefndi Alfreð sem þjálfara ársins 2001, en hann varð í öðru sæti fyrir tímabilið 2001-2002.
Ólafur var einnig útnefndur leikmaður ársins 2001-2002 og hann varð í þriðja sæti 2002-2003.
Magdeburg náði ekki að fylgja Þýskalandsmeistaratitlinum eftir. 2001-2002 varð liðið í þriðja sæti og keppnistímabilið 2002-2003 hafnaði Magdeburg í sjötta sæti, 13 stigum á eftir Kiel.
Ólafur Stefánsson ákvað að breyta til og gat ekki hafnað freistandi tilboði frá spánska liðinu Ciudad Real. Forráðamenn liðsins höfðu samband við Ólaf á EM í Svíþjóð í febrúar 2002, en þar var hann markakóngur og valinn í lið mótsins. Eftir EM voru Spánverjarnir í stöðugu sambandi við Ólaf, sem skrifaði undir samning við liðið 9. mars 2002 og var samningurinn frá 1. júlí 2003 til 2007.
Árangur Ólafs hjá Magdeburg
Hér er árangur Ólafs sem leikmaður Magdeburgar:
* Þýskalandsmeistari: 2001.
* EHF-Evrópumeistari: 1999, 2001.
* Meistaradeild Evrópu, meistari: 2002.
* Leikmaður ársins, 2000-2001, 2001-2002.
* Í heimsgæðaflokki hjá Handball Magazin: 2001, 2002, 2003.
Dormagen gefst upp
Íslendingaliðið Dormagen ákvað að hætta starfsemi í maí 2001. Þetta var ákveðið þegar liðið féll í 2. deild og var öllum samningum leikmanna sagt upp. Róbert Sighvatsson og Daði Hafþórsson höfðu leikið með liðinu, og Guðmundur Þ. Guðmundsson var þjálfari liðsins. Hann kallaði á Geir Sveinsson til að styrkja vörn sína og lék Geir 5 leiki eftir áramót. Héðinn Gilsson lék með liðinu, en hann fór heim um sumarið 2000.
Aðeins 5 Íslendingar
Það voru aðeins fimm Íslandingar sem léku í „Bundesligunni“ 2001-2002, þegar Magdeburg varð þýskur meistari. Ólafur lék aðalhlutverkið hjá liðinu. Patrekur Jóhannesson, sem var orðinn fyrirliði Essen, fékk félagsskap er Guðjón Valur Sigurðsson, KA, varð leikmaður Essen 2001.
Patrekur lék með Essen, en hann fór síðan til Spánar 2003.
Sigurður Bjarnason var hjá Wetzlar, en fór heim þegar hann meiddist illa í febrúar 2003; krossband í hné slitnaði.
Fimmti Íslendingurinn var Gústaf Bjarnason, Dankersen. Hann meiddist og hélt heim og gerðist aðstoðarþjálfari Sigurðar hjá Stjörnunni 2003-2004.
Snjallir leikmenn á ferð
Í næsta pistli höldum við áfram að fylgjast með íslenskum handknattleiksmönnum sem hafa leikið í „Bundesligunni“ á tímabilinu 2003 til 2022. Það koma margir snjallir leikmenn við sögu og er Guðjón Valur Sigurðsson þar fremstur í flokki. Þá er eftir að kalla fram íslenska þjálfara, Þýskalandsmeistara, markakónga og leikmenn sem hafa skorað flest mörk og leikið flesta leik í „Bundesligunni.“ Lokapistlarnir verða því í maílok, er við tökum okkur sumarfrí.
Það er af nógu að taka þegar kafað er niður í handknattleiks-kistuna!
Auf Wiedersehn
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Fyrri greinar Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:
Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi
„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“
Geir himnasending fyrir Göppingen
Axel og Kristbjörg – meistarahjón!
„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!
Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!
Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!
Íslendingar komu, sáu og sigruðu
Blaðamaður „stal“ aðalhlutverkinu!