Einn handknattleiksmaður, Ómar Ingi Magnússon, er á meðal tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2024 sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir 69. árið í röð. Ómar er landsliðsmaður og leikmaður þýska meistaraliðsins SC Magdeburg. Liðið vann einnig bikarkeppnina í Þýskalandi og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.
Tveir þjálfarar og eitt lið
Tveir handknattleiksþjálfarar, Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Evrópubikarmeistara Vals og Þórir Hergeirsson þjálfari Ólympíu- og Evrópumeistara Noregs, eru á meðal þriggja efstu í kjöri á þjálfara ársins. Eitt handknattleikslið er í hópi þeirra þriggja efstu við val á liði ársins 2024, Evrópubikarmeistarar Vals.
Kjöri Íþróttamanns ársins verður lýst í hófi í Silfurbergi í Hörpu, laugardaginn 4. janúar 2025. Um leið verður svipt hulunni af því hver er þjálfari ársins og hvert er lið ársins.
Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2024, í stafrófsröð:
Albert Guðmundsson – fótbolti.
Anton Sveinn McKee – sund.
Ásta Kristinsdóttir – fimleikar.
Eygló Fanndal Sturludóttir – ólympískar lyftingar.
Glódís Perla Viggósdóttir – fótbolti.
Orri Steinn Óskarsson – fótbolti.
Ómar Ingi Magnússon – handbolti.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir – sund.
Sóley Margrét Jónsdóttir – kraftlyftingar.
Sveindís Jane Jónsdóttir – fótbolti.
Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður og leikmaður Magdeburg var kjörinn Íþróttamaður ársins 2023. Hann var ellefti úr hópi handknattleiksfólks til þess að fá nafnbótina. Sigríður Sigurðardóttir var fyrst 1964.
Þrír efstu í kjörinu um þjálfara ársins 2024 í stafrófsröð:
Arnar Gunnlaugsson.
Óskar Bjarni Óskarsson.
Þórir Hergeirsson.
Þrjú efstu í kjörinu um lið ársins 2024:
Ísland, fótbolti kvenna.
Ísland, hópfimleikar kvenna.
Valur, handbolti karla.
Fyrsta kjörið 1956
Á vefsíðu Samtaka íþróttafréttamanna, SÍ, er m.a. að finna upplýsingar um tíu efstu í kjörinu frá 1956 þegar SÍ stóð fyrst að kjörinu. Þar er einnig félagaskrá SÍ en allir þeirra höfðu rétt til þess að taka þátt í kjörinu að þessu sinni. Þar á meðal er umsjónarmaður handbolti.is sem tekið hefur þátt í kjörinu frá 1996.
Félagsmenn SÍ hafa kjörið lið ársins og þjálfara ársins frá 2012.