- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir í fótspor Ólafs og Alfreðs?

Ómar Ingi Magnússon, leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ekki náðu Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar hjá Magdeburg að verja Evrópubikar sinn í Lissabon í Portúgal, þar sem þeir máttu sætta sig við tap fyrir Benfica í framlengdum úrslitaleik Evrópudeildarinnar, 40:39, í gær; sunnudaginn 29. maí. Staðan var 32:32 eftir venjulegan leiktíma. Það er stutt í næsta þýðingarmikinn leik Magdenburgarliðsins, því að mikið er undir þegar Magdeburg tekur á móti HBW Balingen-Weilstetten í „Bundesligunni“ á fimmtudaginn kemur, 2. júní. Þeim nægir jafntefli til að tryggja sér Þýskalandsmeistaratitilinn 2022.


Gísli Þorgeir getur skotið pabba sínum ref fyrir rass, ef hann verður Þýskalandsmeistari. Það verður þá annar meistaratitill Gísla Þorgeirs, en hann varð meistari með Kiel keppnistímabilið 2019-2020.

Gísli Þorgeir Kristjánsson varð meistari með Kiel keppnistímabilið 2019-2020.

Pabbi Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, varð Þýskalandsmeistari með Gummersbach fyrir 34 árum, 1988 í Dortmund.

Það eru liðin 21 ár síðan Magdeburg varð meistari, 2001. Þá voru tveir Íslendingar í herbúðum liðsins, Ólafur Stefánsson og Alfreð Gíslason, þjálfari. 

Ómar Ingi Magnússon, fyrir miðri mynd, vonsvikinn eins og samherjarnir eftir tapið fyrir Benfica eftir framlengdan úrslitaleik við Benfica í Evrópudeildinni í Lissabon í gær. Mynd/EPA

Ómar Ingi getur orðið tólfti Íslendingurinn til að fagna Þýskalandsmeistaratitlinum.

 Saman í meistaraliði

 Axel Axelsson og Ólafur H. Jónsson voru fyrstu Íslendingarnir til að verða Þýskalandsmeistarar, með Dankersen 1977.

 Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson léku saman í meistaraliði Kiel 2013 og 2014.

 Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson urðu meistarar með Rhein-Neckar Löwen 2016.

 Alexander og Guðjón Valur urðu meistarar með Rhein-Nackar Löwen 2017.

 Meistarar með tveimur liðum

Gísli Þorgeir getur orðið annar Íslendingurinn til að verða meistari með tveimur liðum; Kiel 2020 og Magdeburg 2022.

Guðjón Valur Sigurðsson hefur orðið meistari með tveimur liðum, Kiel og Rhein-Neckar Löwen.

Guðjón Valur varð meistari með Kiel 2013, 2014 og með Rhein-Neckar Löwen 2017.

Alfreð níu sinnum meistari

Alfreð Gíslason hefur orðið meistari með þremur liðum; sem leikmaður með Essen 1986 og 1987, sem þjálfari hjá Magdeburg 2001 og Kiel 2009, 2010, 2012, 2013, 2014, 2015.

 Alfreð hefur orðið Þýskalandsmeistari 9 sinnum, tvisvar sem leikmaður og sjö sinnum sem þjálfari.

Aron Pálmarsson hefur orðið meistari fimm sinnum með Kiel; þar af fjögur ár í röð!

Aron Pálmarsson hefur oftast orðið meistari sem leikmaður, eða fimm sinnum með Kiel: 2010, 2012, 2013, 2014 og 2015.

Guðjón Valur hefur orðið meistari þrisvar og Alexander tvisvar.

Þeir sem hafa orðið meistarar einu sinni eru: Axel Axelsson, Ólafur H. Jónsson, Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari (Essen 1987), Ólafur Stefánsson og Stefán Rafn Sigurmannsson.

 Eins og hefur komið fram, þá getur Gísli Þorgeir orðið meistari í annað sinn og Ómar Ingi í fyrsta skipti, ef Magdeburg verður meistari.

 Lokabaráttan

 * Aðeins Kiel getur náð Magdeburg að stigum þegar þrjár umferðir eru eftir í „Bundesligunni“. 

 * Kiel verður þá að vinna alla þrjá leiki sína, gegn Hamburger (H), Rhein-Neckar Löwen (Ú) og Göppingen (H). Magdeburg verður að tapa þremur leikjum sínum; gegn Balingen-Weilstetten (H), Leipzig (Ú) og Rhein-Neckar Löwen (H). 

 * Magdeburg er með 58 stig eftir 31 leik og Kiel er með 52 stig.

 * Ef liðin verða jöfn á stigum, þá gilda úrslit í innbyrðis leikjum liðanna. Kiel tapaði heima 27:29 og Magdeburg tapaði heima 25:30.

 * Markatala Kiel er betri úr þessum tveimur viðureignum; 57:54. Það myndi færa Kiel meistaratitilinn.

 Sterkur hópur

 Magdeburg vann Balingen á útivelli með ellefu marka mun, 28:17. Ég tel litlar líkur á því að Balingen, sem er í fallhættusæti, leggi Magdeburg að velli í GETEC Arena.

 Það verða sjö þúsund áhorfendur sem fylla höllina í Magdeburg á fimmtudaginn kemur, 2. júní, og þá verða tugir þúsunda áhorfenda mættir á Ráðhússtorgið til að sjá leikinn á stóru tjaldi. 

Alfreð Gíslason hefur orðið níu sinnum Þýskalandsmeistari með Essen, Magdeburg og Kiel. Hér er meistaraskjöldurinn kominn á loft í Magdeburg 2001.

 Ég hef trú á að Magdeburgar-liðið endurtaki leikinn frá 2001, að verða meistari. Meðal áhorfenda verður án efa landsliðsþjálfari Þýskalands Alfreð Gíslason, sem var þjálfari Magdeburgarliðsins þá og er búsettur í Magdeburg.

 Allir leikmenn Magdeburgar eru heilir, þannig að þeir eru tilbúnir í slaginn. Stóra veislan verður án efa sunnudaginn 12. júní, er Magdeburg leikur lokaleikinn í Magdeburg. Magdeburg sem hefur aðeins tapað tveimur af 31 leik sínum, mun örugglega ekki tapa þremur síðustu leikjum sínum í „Bundesligunni“ og þar af tveimur á sterkum heimavelli.

 Leikmannahópur Magdeburg kemur frá átta löndum, en 16 manna hópurinn sem lék úrslitaleikinn gegn Benfica í Lissabon kemur frá: Þýskaland 4, Danmörk 4, Ísland 2, Noregur 2, Svíþjóð 1, Slóveníu 1, Pólland 1 og Holland 1.

 Auf Wiedersehn

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Fyrri greinar Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!

Íslendingar komu, sáu og sigruðu

Blaðamaður „stal“ aðalhlutverkinu!

Ólafur var sá besti

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -