Ómar Ingi Magnússon lék við hvern sinn fingur í dag og skoraði 11 mörk úr 14 skotum þegar SC Magdeburg vann nauman sigur á Gummersbach, 32:31, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Leikið var í Schwalbe-Arena í Gummersbach. Matthias Musche skoraði sigurmarkið níu sekúndum fyrir leikslok úr vítakasti. Sergey Hernández markvörður Magdeburg gulltryggði sigurinn er hann varði í opnu færi í hægra horni á síðustu sekúndu.
Ómar Ingi skoraði ekkert af mörkum sínum úr vítakasti. Einnig átti hann tvær stoðsendingar.
Gísli Þorgeir var með
Gísli Þorgeir Kristjánsson lét högg á rifbein í síðasta kappleik ekki slá sig út af laginu. Hann skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar fyrir Magdeburg-liðið sem er langefst í deildinni með 31 stig af 32 mögulegum þegar 16 leikir eru að baki.
Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Magdeburg og var að vanda fastur fyrir í vörninni.
Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Gummersbach. Kentin Mahé og Kay Smits voru markahæstir með átta mörk hvor. Tilkynnt var fyrir leikinn að Elliði Snær hafi skrifað undir nýjan samning við Gummersbach sem gildir fram á sumarið 2029.
Haukur fór á kostum
Haukur Þrastarson heldur áfram að fara á kostum með Rhein-Neckar Löwen. Hann skoraði tug marka og gaf fimm stoðsendingar í gegn Flensburg í kvöld. Það dugði því miður ekki fyrir Rhein-Neckar Löwen. Flensborgarliðið var sterkara og vann, 33:29.
Einar Þorsteinn með á ný
Endurkoma Einars Þorsteins Ólafssonar í lið HSV Hamburg eftir fjarveru vegna meiðsla hafði góð áhrif því Hamborgarliðið vann GWD Minden örugglega, 33:26, á heimavelli. Einar Þorsteinn skoraði eitt mark og var liðtækur í vörninni eins og hans er von og vísa.
Melsungen lagði Bergischer
Arnar Freyr Arnarsson fagnaði sigri með MT Melsungen á heimavelli gegn Bergischer HC sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar við annan mann, 33:28. Arnar Freyr skoraði ekki mark en lét til sín taka í vörninni.
Reynir Þór Stefánsson var ekki í leikmannahópi MT Melsungen.
Fyrsti leikur Rúnar var í Berlín
Rúnar Sigtryggsson fékk erfitt verkefni í fyrsta leik sínum við stjórnvölinn hjá HSG Wetzlar en hann tók við þjálfun liðsins á föstudaginn. Wetzlar sótti Füchse Berlin heim og tapaði með sjö marka mun, 35:28. Fá lið leggja Berlínarliðið á heimavelli. Wetzlar var sex mörkum undir í hálfleik, 19:13.
Næsti leikur Wetzlar verður gegn Eisenach á heimavelli eftir viku. Þá verður Rúnar væntanlega búinn að setja meira mark sitt á liðið en honum tókst að gera á þeim skamma tíma sem leið frá komu hans til félagsins og þangað til það mætti til leiks í Max Schmeling-Halle.
Hannover-Burgdorf vann Stuttgart á heimavelli í dag, 28:22. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Staðan í þýsku 1. deildinni:





