„Tilfinningin er nokkuð góð þótt ég hefði viljað fá eitthvað meira úr leiknum,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals eftir fimm marka tap fyrir þýska liðinu MT Melsungen, 33:28 í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld í fjórðu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Valur var marki undir hálfleik, 16:15, og var með jafnan leik fram á síðustu sex til sjö mínútur þegar leiðir skildu.
Skelfileg byrjun
„Við hefðum getað fengið meiri út leiknum ef byrjunin hefði ekki verið svo skelfileg sem raun bar vitni um,“ sagði Óskar Bjarni en Melsungen skoraði sjö af fyrstu átta mörkum leiksins.
„Við tókum út slæma kaflann strax í byrjun sem við höfum yfirleitt ekki gert fyrr en síðar í leikjum. Það er alls ekki auðvelt að lenda í svona slæmri stöðu gegn jafn öflugu og vel spilandi liðið og Melsungen er. Að okkur tókst að vinna upp forskotið og komst í jafnan leik fannst mér vel af sér vikið hjá okkur,“ sagði Óskar Bjarni og undirstrikaði að Valur hafi aðeins verið marki undir í hálfleik, byrjað síðari hálfleik manni fleiri og náð strax að jafna metin.
Náðum að tendra upp í höllinni
„Við komumst yfir í síðari hálfleik og náðum aðeins að tendra upp í höllinni. Það var gaman að fá Baldur bongó á svæðið og strætóskýlið, hafa smá líf í tuskunum,“ sagði Óskar Bjarni sem var ánægður með margt. M.a. sagði hann innkomu markvarðarins unga, Jens Sigurðarsonar hafa verið góða auk þess sem liðið hafi brugðist vel við tíðum breytingum í varnarleiknum.
„Mér fannst orkan og ástríðan í leik okkar vera mikið betri en til dæmis fyrir viku gegn Melsungen úti. Okkur gekk vel að halda Mensing og Enderleit niðri en kannski síður að koma böndum yfir Elvar Örn sem var frábær í leiknum.
Þegar kom fram undir lokin þá tókst Melsungen að loka leiknum með því að fara í sjö á sex. Það er eitthvað sem við verðum að fara að grípa til líka, það er að leika sjö á sex,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í kvöld.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 4. umferð, úrslit
Melsungen gerði það sem þurfti til að vinna