- Auglýsing -
- Auglýsing -

Örn færir sig á milli félaga í Þýskalandi

Örn Vésteinsson Östenberg verðandi leikmaður VfL Lübeck-Schwartau. Mynd/VfL Lübeck-Schwartau
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Örn Vésteinsson Östenberg hefur samið við þýska 2. deildarliðið VfL Lübeck-Schwartau til tveggja ára. Samningurinn tekur gildi í sumar en Örn hefur frá áramótum leikið með öðru liði deildarinnar með líku nafni, TuS N-Lübbecke í Norðurrín-Vestfalíu. Hann hljóp þar í skarðið með skömmum fyrirvara þegar meiðsli herjuðu á leikmenn liðsins.

VfL Lübeck-Schwartau er með bækistöðvar í Bad Schwartau í Slésvík-Holtsetalandi í norður hluta Þýskalands. Liðið hafnaði í 12. sæti af 19 liðum 2.deildar en síðasta umferðin var háð í gærkvöld.

VfL Lübeck-Schwartau verður þriðja liðið sem Örn leikur með í Þýskalandi því á síðasta ári var hann hjá TV Emsdetten en við fall liðsins úr 2. deild fluttist Örn yfir til Halden í Noregi og lék Halden í norsku úrvalsdeildinni frá því í september og fram í desember er TuS N-Lübbecke kom inn í myndina.

Í fótspor Sigurðar og Sigtryggs

Sigtryggur Daði Rúnarsson leikmaður Íslandsmeistara ÍBV lék með VfL Lübeck-Schwartau frá 2018 til 2020. Áður hét liðið Bad Schwartau og lék Sigurður Bjarnason með liðinu um nokkurra ára skeið síðla á tíunda áratugnum.

Örn er 24 ára gamall og lék með yngri landsliðum Íslands og var um skeið hjá Gróttu og Selfossi hvaðan hann á ættir að rekja í föðurætt. Örn fæddist í Svíþjóð og ólst upp í Växjö í Smálöndum. Faðir hans er Vésteinn Hafsteinsson frá Selfossi, Íslandsmethafi í kringukasti og þjálfari nokkurra af allra fremstu kösturum heims á undanförnum tveimur áratugum. Véstinn tók nýverið við starfi afreksstjóra Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Móðirin, Anna Östenberg, var þekkt frjálsíþróttakona í Svíþjóð landsmetshafi í kringukasti um árabil. Örn er elstur af þremur börnum Vésteins og Önnu.

VfL Lübeck-Schwartau sagði frá komu Arnar 10. maí en handbolti.is sofnaði illilega á verðinum og fékk ekki pata af vistaskiptunum fyrr en í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -