Svíþjóðarmeistarar Skara HF með íslensku handboltakonurnar Aldísi Ástu Heimisdóttur og Lenu Magréti Valdimarsdóttur innan sinna raða, unnu öruggan sigur á Kungälvs, 31:22, á heimavelli í dag í 5. umferð deildarinnar. Með sigrinum færðist liðið upp í 5. sæti deildarinnar með sex stig.
Aldís Ásta skoraði fjögur mörk í sex skotum og gaf eina stoðsendingu. Lena Margrét lagði einnig lóð sín á vogarskálarnar og skoraði eitt mark í tveimur skotum og gaf tvær stoðsendingar.
Berta skoraði fjögur
Berta Rut Harðardóttir og félagar í Kristianstad HK töpuðu fyrir efsta liði deildarinnar, Önnereds, á heimavelli, 34:30. Berta Rut skoraði fjögur mörk í fimm skotum og átti eina stoðsendingu. Kristianstad HK er í áttunda sæti deildarinnar með fimm stig að loknum fimm viðureignum.
Elín Klara í Boden á morgun
Elín Klara Þorkelsdóttir og leikmenn IK Sävehof mæta Boden á morgun í síðustu viðureign 5. umferðar. IK Sävehof er í öðru sæti deildarinnar og fer upp að hlið Önnereds með sigri í norður-Svíþjóð á morgun.





