Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, hefur tekið sæti í þjálfarateymi karlalandsliðsins í handknattleik. Óskar Bjarni var við hliðarlínuna á dögunum þegar leikið var við Færeyinga í Laugardalshöll. Einnig tók hann þátt í æfingum landsliðsins í síðustu viku.
Óskar Bjarni verður þar með samstarfsmaður Snorra Steins Guðjónssonar landsliðsþjálfara og Arnórs Atlasonar aðstoðarþjálfara. Óskar Bjarni var aðstoðarþjálfari landsliðsins þegar Arnór og Snorri léku með landsliðinu á sínum tíma.
Þekkja þeir vel til hans til viðbótar við að Óskar Bjarni var aðstoðaþjálfari Vals við hlið Snorra Steins síðustu ár hins síðarnefnda við þjálfun Valsliðsins.
Áður komið að málum
Áður hefur Óskar Bjarni komið nærri karlalandsliðinu. Hann var nokkrum sinnum í þjálfarateyminu á ferli Guðmundar Þórðar Guðmundssonar með landsliðið, m.a. frá 2008 til 2012 ásamt Gunnari Magnússyni. Einnig var Óskar Bjarni aðstoðarþjálfari landsliðsins í starfstíð Geirs Sveinssonar landsliðsþjálfara frá 2016 til 2018.
Gjörþekkir handboltann
Fáir, ef þá nokkrir, þekkja betur til íslensks handknattleiks og handknattleiksþjálfunar á síðustu árum en Óskar Bjarni sem hefur þjálfað allt frá barnaflokkum og upp í meistaraflokk.
Óskar Bjarni verður m.a. til halds og trausts þegar íslenska landsliðið tekur þátt í Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar.
Aðkoma Óskars Bjarna að landsliðinu breytir engu um að hann verður áfram aðalþjálfari karlaliðs Vals sem trónir á toppi Olísdeildar karla.