Tinna Mark Antonsdóttir Duffield, tengiliður mótshaldara í Kristianstad í Svíþjóð fyrir Evrópumótið í handknattleik karla, segir vel hafa gengið fyrir íslenska stuðningsmenn að verða sér úti um gistingu í bænum og í grennd við hann.
Ísland leikur í F-riðli í Kristianstad dagana 16., 18. og 20. janúar og reiknar Tinna með því að um 2.500 Íslendingar leggi leið sína þangað til að berja íslenska landsliðið augum.
Sjá einnig: Síðast vildu Íslendingarnir fá að djamma
Veitir upplýsingar og svarar spurningum
Í sérstökum stuðningsmannahóp á Facebook hefur Tinna verið dugleg að setja inn hagnýtar upplýsingar og tilkynningar, auk þess sem hún svarar spurningum sem stuðningsmenn kunna að hafa í tengslum við mótið.
„Ég hef allavega ekki fengið mikið af spurningum um gistingu. Það er svolítið búið að senda á mig spurningar í gegnum þessa grúppu á Facebook. Það hefur eitthvað verið spurt um gistsingu en það kom listi inn á Facebook-grúppuna með upplýsingum um hótel sem væru í boði, bæði í Kristianstad og nágrenni.
Svo er Airbnb í boði. Þannig að nei, ég held að fólki hafi gengið nokkuð vel að finna sér gistingu. Ég held að það verði margir í Malmö, kannski einhverjir í Kaupmannahöfn. Þá er mikið af smábæjum í kring sem eru um 20-30 mínútum frá Kristianstad.
Það eru örugglega margir sem verða þar. Mig minnir að það séu 44.000-45.000 manns sem búa í Kristianstad, í sjálfum kjarnanum, en í sveitarfélaginu eru um 100.000 manns. Það eru smærri bæir allt í kring,“ segir Tinna.
Sjá einnig: Kristianstad verður umturnað í Litla-Ísland
Óskuðu eftir riðli Íslands
Hversu miklu máli skiptir það Kristianstad að fá riðilinn í bæinn?
„Mótshaldarar sóttu sem sagt um að fá að halda mótið og að fá riðilinn sem Ísland væri í. Eftir síðasta mót sögðu þeir bara strax að þeir vildu fá Ísland. Svo eru náttúrlega alltaf tengingar á milli Kristianstad og Íslands.
Einn sem er að vinna fyrir sænska handknattleikssambandið var íþróttastjóri handboltaliðsins Kristianstad IFK þegar við fjölskyldan komum hingað fyrst fyrir mörgum árum.
Það hafa verið margir Íslendingar í Kristianstad, ekki bara í handboltanum heldur líka í fótboltanum. Það eru margir læknar hérna þannig að það er svolítil íslensk tenging í þessum bæ.
Þeir vildu ólmir fá Íslendingana aftur og sóttu um það. Það eru kannski ekki opinberar upplýsingar, ég veit það ekki, en það skiptir kannski ekki öllu máli! Þeir sóttu hart eftir því, að fá að halda mótið og þá að fá riðil Íslands,“ segir hún.
Ekkert í líkingu við Íslendingana
Mikil og sérstök áhersla er því lögð á komu Íslendinga til Kristianstad. Í F-riðli leika einnig Ítalía, Pólland og Ungverjaland.
„Það var búið að selja einhverja miða til Ungverjana og Ítalanna en ekkert í líkingu við Íslendingana. Það verður eitthvað af stuðningsmönnum hinna liðanna og því góð stemning.
Allur bærinn verður í þessu. Þetta verður svakalega skemmtilegt. Maður vill ekki missa af þessu ef maður er handboltaáhugamaður,“ segir Tinna um miðasölu til stuðningsfólks hinna þjóðanna.
Drukku mikið en ekkert vesen
Spurð hvort hún hafi einhver heilræði fyrir íslenska stuðningsfólkið vegna komunnar til Kristianstad segir Tinna Mark Antonsdóttir Duffield:
„Bara að skemmta sér fallega. Það var umtalað eftir síðasta mót í bænum hjá skipuleggjendum og Svíunum sem mættu hvað Íslendingarnir djömmuðu mikið. Það var svo mikið partý.
Þeir drukku svo mikið en það var ekkert vesen. Það voru bara allir að skemmta sér. Mótshaldararnir voru svo ánægðir með það. Fólkið bara drakk, það var gaman og stuð. Það þurfti aldrei að kalla til gæslu.
Það var ekkert vesen á fólkinu inni í höllinni eða þegar það djammaði á „fan-zoneinu“ (innsk. samkomusvæði stuðningsfólks). Vonandi verðum við aftur til fyrirmyndar í þetta sinn. Það er bara að skemmta sér vel og fallega.“
F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.




