Össur Haraldsson var úrskurðaður í eins leiks keppnisbann á fundi aganefndar HSÍ í dag og má þar af leiðandi ekki leika með þegar Haukar mæta HK í átta liða úrslitum bikarkeppni HSÍ á föstudaginn á Ásvöllum. Össur var útilokaður með skýrslu vegna sérstaklega ódrengilegrar hegðunar, eins og segir í úrskurði aganefndar í dag, á síðustu sekúndum viðureignar Hauka og Fram í 15. umferð Olísdeildar karla í gærkvöld.
„Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:11 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann,“ segir orðrétt í úrskurðinum. Bannið tekur gildi á hádegi á fimmtudaginn 18. desember.
Fjallað var um leik Hauka og Fram í Handboltahöllinni í gærkvöld þar sem m.a. var velt vöngum yfir broti Össurar:
Stjörnumaður tekur út bann í febrúar
Barnabás Rea leikmaður Stjörnunnar var einnig úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar í dag. Rea var útilokaður frá viðureign FH og Stjörnunnar í gærkvöld vegna sérstaklega ódrengilegrar hegðunar í leik FH og Stjörnunnar í Olís-deild.
Rea tekur út leikbannið þegar Stjarnan mætir Þór 5. febrúar í 16. umferð Olísdeildar. Stjarnan er fallin úr leik í bikarkeppninni þannig að Rea á ekki þess kost að taka út bannið í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.
Rautt spjald Elvars var afturkallað
Útilokun og rautt spjald sem Elvar Otri Hjálmarsson leikmaður ÍR hlaut í viðureign ÍR og Hauka í 14. umferð á miðvikudaginn í síðustu viku var fellt niður. Dómarar leiksins meta það svo að rauða spjaldið á leikmanninn hafi verið rangur dómur og málið því fellt niður, segir í úrskurði aganefndar sem nánar er hægt að kynna sér í hlekk hér fyrir neðan.
Aganefnd HSÍ | Úrskurður 16.12. ’25



