Óvissa ríkir hjá handknattleiksþjálfaranum snjalla Ágústi Þór Jóhannssyni um það hvort hann haldi áfram að þjálfa yngri landslið kvenna. Einnig hefur Ágúst Þór verið aðstoðþjálfari A-landsliðs kvenna síðan Arnar Pétursson tók við starfi landsliðsþjálfara fyrir sex árum.
Spurður í gær svaraði Ágúst Þór því til að erfitt væri að segja hvort hann ætlaði að halda áfram með yngri landslið kvenna samhliða þjálfun karlaliðs Vals.
„Framhaldið hefur ekki verið rætt. Fljótlega eftir að við komum heim setjumst við niður og skoðum hlutina,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson við handbolta.is í gær.
Ágúst Þór hefur nokkur undanfarin ár verið annar þjálfara yngri landsliða kvenna ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni. Þeir fylgdu 2004 landsliðinu eftir frá 16 ára aldri og þangað til hópurinn lauk yngri landsliða keppni með HM 20 ára landsliða á síðasta ári með afar góðum árangri. Frá síðasta hausti hafa þeir félagar verið með 2006 landslið stúlkna á sinni könnu. Liðið lauk keppni á Evrópumótinu í gær og tryggði sér sér farseðilinn á HM 20 ára landsliða á næsta ári.
Færði sig á milli liða
Eftir átta sigursæl tímabil með kvennalið Vals tók Ágúst Þór í sumar við þjálfun karlalaliðs Vals. Óvíst er að leikjadagskrá karlaliðs falli eins vel að þjálfun yngri landsliða kvenna né starfi með A-landsliði kvenna sem tekur m.a. þátt í HM í lok nóvember og í byrjun desember.