Hamza Kablouti lék ekki með Víkingi gegn ÍBV í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á síðasta föstudag. Hann meiddist í fyrri hálfleik í viðureign Víkings og Stjörnunnar fyrir rúmri viku.
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, vonast til að Kablouti geti leikið með gegn KA á heimavelli á föstudaginn. Ennþá er engu hægt að slá föstu og væntanlega skýrist það ekki fyrr en nær dregur leiknum. Kablouti hefur skoraði 21 mark fyrir Víkinga í tveimur heilum leikjum og hluta úr þeim þriðja síðan hann kom til félagsins að láni frá Aftureldingu í síðasta mánuði.
Styrmir Sigurðsson var einnig fjarverandi í liði Víkinga þegar þeir sóttu leikmenn ÍBV heim. Styrmir sprakk út í leiknum við Stjörnuna og söknuðu Víkingar hans mjög á móti ÍBV.
Jón Gunnlaugur sagði að fjarvera Kablotui og Styrmis hafi sett strik í reikninginn í leiknum í Eyjum sem Víkingur tapaði með fjögurra marka mun, 27:23, eftir að hafa verið síst lakara liðið í leiknum nær allan leiktímann.
Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.