- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Pabbi forseta Íslands lagði línuna fyrir Kiel!

Hans Jakobsen, formaður Kiel, og Jóhann Ingi Gunnarsson mættu á B-keppnina í Hollandi 1983, til að fylgjast með leikmönnum. Ljósmynd: Sigmundur Ó. Steinarsson.
- Auglýsing -

Jóhannes Sæmundsson, faðir Guðna Th., forseta Íslands og Patreks, fyrrverandi landsliðsmanns og nú þjálfara, lagði línurnar fyrir Kiel áður en „Bundesligan“ 1982-1983 hófst. Það gerði Jói Sæm er liðið var í æfingabúðum í Bæjaralandi í tíu daga í ágúst og þaðan hélt liðið til Nýborg í Danmörku til æfinga áður en það kom til Kielar og hóf lokaundirbúning sinn; æfði sjö sinnum í viku og lék nokkra æfingaleiki. Blaðið Kieler Nachrichten (KN) sagði að Jóhannes hafi lagt línurnar í undirbúningi þjálfarans Jóhanns Inga Gunnarssonar. Blaðið sagði að Jóhannes, sem væri íþróttakennari við Menntaskólann í Reykjavík, væri sérfræðingur í þjálfarafræði.


Jói Sæm, sem var góður frjálsíþróttamaður á yngri árum, þjálfaði KR og ÍR í frjálsíþróttum og einnig handknattleikslið Hauka, FH, Ármanns og KR. Hann veitti Einari Bollasyni, landsliðsþjálfara í körfuknattleik, aðstoð og þegar Jóhann Ingi tók við landsliðinu í handknattleik aðeins 24 ára; yngsti landsliðsþjálfari Evrópu, 1978, fékk hann Jóhannes sem aðstoðarmann sinn og liðstjóra. Síðan Jóhann Ingi gerðist þjálfari Kiel, hafa átján Íslendingar verið þjálfarar á þýskri grundu og þrettán þeirra hafa þjálfað lið í „Bundesligunni“.

Jóhann Ingi Gunnarsson á hliðarlínunni.

 Það vakti mikla athygli þegar Jóhann Ingi var ráðinn þjálfari Kiel í apríl 1982. Þó ungur væri var hann ekki ókunnugur þjálfun. Hann fór 22 ára til Júgóslavíu, til að kynna sér þjálfun þar í nokkrar vikur 1976. Hann var þjálfari 21 árs landsliðsins áður en hann tók við landsliðinu og stjórnaði því í tvö ár; 1978-1980. Leif Mikkelsen, landsliðsþjálfari Danmerkur, fékk Jóhann Inga til að koma til Danmerkur 1981 til að halda fyrirlestra í danska handknattleiksskólanum og í lok árs 1981 var Jóhann Ingi orðaður sem eftirmaður Leifs og hafði Gunnar Knudsen, formaður danska sambandsins, samband við Jóhann Inga, sem var einnig orðaður við spánska liðið Málaga og Dankersen í Þýskalandi, sem Axel Axelsson lék með.

 Jóhann Ingi var tilbúinn að víkka sjóndeildarhringinn og gat ekki hafnað tilboði frá Kiel í apríl 1982; skrifaði undir eins árs samning og var yngsti þjálfarinn í „Bundesligunni“ – 28 ára. Þá var hann einnig fyrsti Vestur-Evrópubúinn til að gerast þjálfari í Þýskalandi, en Þjóðverjar höfðu leitað austur fyrir járntjald eftir þjálfurum. Það voru kynslóðaskipti hjá Kiel þegar Jóhann Ingi kom til liðsins. Þjálfarar í Þýskalandi sögðu að Jóhann Ingi hafi gert mistök. Leikmenn Kiel voru ekki á sama máli og sögðu að þeir hefðu ekki kynnst meiri framför síðan Jóhann Ingi kom. 

 Jóhann Ingi og lærisveinar hans stóðust prófið, þegar þeir gerðu jafntefli við meistaralið Grosswallstadt í fyrsta leik, 17:17. Uppselt var á alla heimaleiki Kiel, 7.500 áhorfendur mættu á leikina. Mikið var rætt og ritað um „spútnikana“ Jóhanns Inga og í einum leiknum, gegn Dietzenbach, 24:12, hélt Holger Oartel marki sínu hreinu í 18,01 mín., og staðan var 8:0 og hálfleikstölur 12:3. Þegar staðan var 15:3 slökuðu leikmenn Kiel á klónni.

 „Við leikum öðruvísi en önnur lið í Bundesligunni. Við leikum blöndu af júgóslavneskum, pólskum og rússneskum handbolta, sem ég hef aðlagað þýsku hugarfari,“ sagði Jóhann Ingi við blaðið Kieler Nachrichten.

Hans Jacobsen, formaður Kiel, og Jóhann Ingi Gunnarsson mættu á B-keppnina í Hollandi 1983, til að fylgjast með leikmönnum. Ljósmynd: Sigmundur Ó. Steinarsson.

  Hans Jacobsen, formaður Kiel, sagði eitt sinn við pistlahöfund að það hafi verið mikið gæfuspor að ráða Jóhann Inga sem þjálfara. „Hann byggði strax upp sterka liðsheild. Allir leikmenn liðsins leggja mesta áherslu á liðsheildina. Jóhann Ingi gaf ungum leikmönnum tækifæri og var meðalaldur liðsins um tíma rúmlega 22 ár.“

  Það kom fáum á óvart er Kiel gerði nýjan samning við Jóhann Inga í upphafi fyrsta keppnistímabils hans; 1982-1983. Jóhann Ingi skrifaði undir samning til 1985. Þá vildu mörg lið fá hann til sín, eins og Gummersbach, Grosswallstadt og Dankersen, en hann ákvað að skrifa undir eins árs samning við Kiel, til 1986.

 Árangur Jóhanns Inga, sálfræðinema í Kielarháskóla, vakti athygli, þar sem hann hafi gert kraftaverk með marga miðlungsleikmenn; náð að gera „litlu músina“ að stóru nafni á stuttum tíma var sagt um Jóhann Inga í grein um hann í Der Spiegel og Kicker orðaði hann við þýska landsliðið. 

 Undir stjórn Jóhanns varð Kiel í öðru sæti tímabilið 1982-1983, fjórða sæti 1983-1984, öðru sæti 1984-1985 og fimmta sæti 1985-1986.

 Jóhann Ingi varð í þriðja sæti í kjöri lesenda Handball Magazin 1984. Fyrstur var Simon Schobel, landsliðsþjálfari Þýskalands, sem varð í silfursæti á ÓL í Los Angeles og annar var þjálfari Essen, Peter Ivanesco.

 Jóhann Ingi ákvað að taka boði Þýskalandsmeistara Essen 1986 og skrifaði undir þriggja ára samning, sem var uppsegjanlegur eftir hvert keppnistímabil. Essen varð Þýskalandsmeistari undir stjórn Jóhanns Inga 1987, en síðan fór að halla undan fæti og Jóhann Ingi hætti störfum hjá Essen 25. janúar 1988, er honum var sagt upp þjálfarastarfi sínu. Klaus Schorn, forseti Essen, sagði í viðtali við Morgunblaðið að Jóhanni Inga hafi verið boðið að halda áfram sem þjálfari, en með annað starfssvið en áður og sömu launakjör en því hafnaði hann. „Jóhanni var boðið þetta vegna þess að hann hafði ekki nógu góð tök á liðinu.“

 Hvenær var fyrst hugleitt að reka Jóhann?

 „Hann var alls ekki rekinn þó Jóhann líti svo á málið. Hann heldur launum sínum og íbúð og bíl og síma og guð má vita hvað. Við báðum hann að halda áfram störfum hjá félaginu og það var gert skriflega. Ég sem forseti félagsins hlýt að grípa til minna ráðstafana þegar illa gengur. Jóhann hafnaði okkar tilboði og hafði áður gefið í skyn að hann hygðist taka að sér önnur verkefni, í Svíþjóð eða á Íslandi.“

 Jóhann Ingi kom heim sumarið 1988 og tók þá við þjálfun KR-liðsins, sem hann þjálfaði áður en hann fór til Kiel.

Kristján mætir til leiks

    Kristján Arason var annar þjálfarinn sem hélt til Þýskalands, er hann gerðist þjálfari Bayer Dormagen 1994. Hann stjórnaði liðinu í tvö tímabil í „Bundesligunni“ – til 1996. Hann var á leiðinni heim, þegar hann fékk tilboð frá Wallau Massenheim, sem hann gat ekki hafnað. Liðinu gekk illa í byrjun árs 1997, þannig að Kristján var leystur frá störfum. Norska liðið Drammen bauð honum þá fjögurra ára samning, sem Kristján hafnaði og hélt heim.

 Frægur fyrir að útfæra hraðaupphlaup

 Viggó Sigurðsson gerðist þjálfari 2. deildarliðsins Wuppertal 1996 og með liðinu hófu að leika Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson og Rússinn Dimitri Filippov, sem lék með Stjörnunni undir stjórn Viggós. 

Viggó Sigurðsson stjórnar Wuppertal í leik.

  Viggó var ákveðinn þjálfari, sem vildi hafa mikinn aga á liði sínu. Hann hafði aflað sér mikillar þekkingar og reynslu hjá rússneska landsliðsþjálfaranum Maxímov, sem var einn af bestu leikmönnum heims og hafði yfirburða þekkingu á handknattleik. Viggó hafði þrisvar sinnum verið í æfingabúðum með rússneska landsliðinu í Þýskalandi, í tvær til þrjár vikur í hvert skipti. 

 Eins og sagt hefur verið frá áður, náði Viggó mjög góðum árangri með Wuppertal, sem tryggði sér sæti í „Bundesligunni“ 1997. Eftir það sauð upp úr, þegar ráðríkur framkvæmdastjóri Wuppertal, Winfries Meister, var á móti að Geir Sveinsson kæmi til liðsins og þá var hann ekki ánægður með Ólaf Stefánsson. Viggó stóð á sínu og var ekki ánægður með að menn sem höfðu lítið vit á handknattleik, væru að hræra í leikmannahópi sínum. Þegar Ólafur var farinn til Magdeburgar 1998 og Wuppertal tapaði sex leikjum í röð í byrjun árs 1999, var Viggó látinn taka poka sinn.

 Wuppertal-liðið lék mjög skemmtilegan handknattleik undir stjórn Viggós, sem var sérfræðingur að útfæra hraðaupphlaup; sem leikmenn Wuppertal tefldu fram á margan hátt. Þegar Ólafur lék með liðinu, hófust hraðaupphlaupin oftast frá honum. Leikmenn liðsins voru fljótir fram, eins og Viggó á árum áður, en frægt var þegar hann sem leikmaður Víkings; var svo fljótur, að hann hljóp dómarann Hannes Þ. Sigurðsson niður, inn í vítateig andstæðingana.

 Viggó, var í miklum metum sem þjálfari í Þýskalandi og vildi Gummersbach fá hann til liðs við sig. Viggó snéri heim 1999, en svaraði kalli frá Flensburg keppnistímabilið 2006-2007, er forráðamenn liðsins báðu Viggó að þjálfa Flensburg tímabundið er þjálfarinn Kent Harry Anderson veiktist. Viggó gerði það með miklum sóma og stýrði liðinu í 16 leikjum. 

Alfreð Gíslason stjórnar sínum mönnum í leik.

Kóngurinn kemur á svæðið

  Árið 1997 mætir sjálfur kóngurinn, Alfreð Gíslason, til leiks. Það hefur áður verið sagt frá dvöl hans hjá Hameln 1997-1999 og þegar Magdeburg verður Þýskalandsmeistari undir hans stjórn 2001. Það var svo árið 2005 að Alfreð tekur þá ákvörðun að breyta til og gera samning við Gummersbach, að hann tæki við þjálfun liðsins vorið 2007 eftir átta ára starf hjá Magdeburg.

 Óvænt uppákoma á sér síðan stað í janúar 2006, en þá var Alfreð leystur frá starfi rúmu ári áður en hann ætlaði sér. „Í ljósi þess hvað Alfreð hefur gert fyrir félagið þá var þetta ekki auðveld ákvörðun en því miður óhjákvæmleg þar sem ljóst virðist að Alfreð næði ekki lengra með liðið,“ sagði Bernd-Uwe Hildebrand, framkvæmdastjóri Magdeburg. Þessi ákvörðun kom leikmönnum Magdeburgar og öðrum á óvart. Þess má geta að Alfreð, sem er búsettur í Magdeburg, er í miklum metum hjá félaginu enn í dag, algjör dýrlingur!

Alfreð Gíslason á glæsilegan þjálfaraferil.

 Alfreð fór til Gummersbach einu ári fyrr en hann ætlaði sér og stjórnaði liðinu í tvö keppnistímabil; 2006-2008, en þá fékk hann tilboð frá Kiel sem hann gat ekki hafnað. Gummersbach gaf Alfreð eftir, en hann var samningsbundinn liðinu. Gummersbach gat ekki hafnað hárri peningaupphæð frá Kiel, sem liðið fékk fyrir að leysa Alfreð undan samningi.

 Alfreð naut sín vel sem þjálfari besta liðs Þýskalands og náði frábærum árangri. Kiel varð sex sinnum þýskur meistari undir stjórn Alfreðs og fimm sinnum bikarmeistari. Fjórum sinnum vann Kiel tvöfalt, bæði deild og bikar: 2009, 2010, 2013, 2014. Kiel hafnaði tvisvar í öðru sæti undir stjórn Alfreðs, tvisvar í þriðja sæti og einu sinni í fimmta sæti, en þá varð liðið bikarmeistari, 2018.

 Alfreð hætti hjá Kiel 2019 og tók síðan við þýska landsliðinu 2020.

10 sinnum útnefndur þjálfari ársins!

Alfreð Gíslason var þjálfari ársins hjá Handball Magazin 2001. Hér má sjá síðuna í blaðinu, sem segir frá kjöri Alfreðs.

 Áður en ég kalla fleiri þjálfara til leiks, finnst mér rétt að skoða þær viðurkenningar sem Alfreð hefur fengið. Þýska blaðið Handball Magazin veitti þjálfurum viðurkenningu fram til ársins 2013, en fyrst hóf blaðið að útnefna „Trainer der saison“ 1984. Það voru lesendur blaðsins sem völdu þjálfarann. Jóhann Ingi Gunnarsson, Kiel, var útnefndur hjá blaðinu 1986, en Alfreð var útnefndur 2001, sem þjálfari Magdeburgar, og fjórum sinnum sem þjálfari Kiel, 2009, 2011, 2012 og 2014.

 Þýska handknattleikssambandið hóf að krýna „Trainer des Jahres“ 2000 í „Bundesligunni“ og var Alfreð krýndur fimm sinnum, 2002 Magdeburg og síðan 2009, 2012, 2015 og 2019 sem þjálfari Kiel. Dagur Sigurðsson, Füchse Berlín, var krýndur 2011 og Guðmundur Þ. Guðmundsson, Rhein-Neckar Löwen 2014.

Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur alltaf verið líflegur á hliðarlínunni.

 Alfreð er eini þjálfarinn sem hefur verið valinn þjálfari ársins með tveimur liðum.

 Alfreð var tvisvar sinnum á sama ári þjálfari ársins hjá Handball Magazin og þýska sambandinu; 2009 og 2012.

Guðmundur hjá þremur liðum

 Guðmundur Þórður Guðmundsson var ráðinn þjálfari hjá Bayer Dormagen; við hliðina á Peter Pysall 1999. Hann tók síðan alfarið við liðinu 2000-2001, en var leystur frá störfum eftir seinna tímabil sitt. Guðmundur Þórður kom síðan aftur til Þýskalands 2010, er hann tók við Rhein-Neckar Löwen og stjórnaði liðinu fjögur keppnistímabil í „Bundesligunni“ með góðum árangri. Liðið hafnaði fyrst í fjórða sæti, þá í fimmta sæti og árið eftir í þriðja sæti. Keppnistímabilið 2013-2014 missti Löwen meistaratitilinn til Kiel, sem var með betri markatölu.

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Peter Pysall, þjálfarar Bayer Dormagen.

 Guðmundur hætti þá hjá Löwen kom síðan aftur á þýska grund í byrjun 2020, þegar hann hóf að starfa sem þjálfari hjá Melsungen 1. febrúar. Hann var síðan þjálfari liðsins tímabilið 2020-2021, en var leystur frá störfum eftir aðeins þrjá leiki, í september 2021.

  * Róbert Sighvatsson, landsliðsmaður hjá Wetzlar, meiddist illa í byrjun árs 2006. Hann tók við þjálfun liðsins tímabundið frá 9. október 2006 til 16. febrúar 2007.

Dagur í sviðsljósinu

 Dagur Sigurðsson, sem fór frá Wuppertal til Wakunaga í Japan 2000, gerðist spilandi þjálfari með Bregenz í Austurríki 2003-2006, en þá kom hann heim og var starfsmaður hjá Val. Það var 2009 sem kallið kom frá Berlínarliðinu Füchse, sem Dagur gat ekki hafnað. Undir hans stjórn var liðið í toppbaráttunni í „Bundesligunni“ fram til 2015 og bikarmeistari 2014.

Dagur Sigurðsson hefur náð góðum árangri sem þjálfari.

  Dagur var ráðinn landsliðsþjálfari Þýskalands 2016 og undir hans stjórn urðu Þjóðverjar Evrópumeistarar 2016. Dagur sagði starfi sínu lausu 2017 og gerðist þá landsliðsþjálfari Japans.

  * Aron Kristjánsson réðist sem þjálfari Hannover-Burgdorf í „Bundesligunni“ sumarið 2010, en stoppaði ekki lengi hjá félaginu. Aron var leystur frá störfum í febrúar 2011.

  * Geir Sveinsson tók við þjálfun Magdeburgar 2014 og varð liðið í fjórða sæti tímabilið 2014-2015, en Geir var leystur frá störfum 15. desember 2015. Geir var þjálfari HSG Nordhorn-Lingen tímabilið 2019-2020, þar sem hann var látinn taka poka sinn. 

  * Erlingur Richardsson tók við starfi Dags hjá Füchse Berlín tímabilið 2015-2016 og hafnaði liðið í fimmta sæti í „Bundesligunni“. Erlingur gerðist síðan landsliðsþjálfari Hollands, en hann sagði starfi sínu lausu á dögunum. 

 Annar Íslendingurinn sem kom til að þjálfa Rhein-Neckar Löwen var landsliðsmaðurinn Kristján Andrésson, sem hafði leikið með og þjálfað GUIF í Svíþjóð fram til 2016, er hann tók við sænska landsliðinu og var þjálfari liðsins 2016-2020. Hann gerðist þjálfari Löwen um sumarið, tók við starfi Danans Nikolaj Jacobsen. Með Löwen léku þeir Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason. Kristján kynntist því fljótt að það er ekki dans á rósum að þjálfa í Þýskalandi, þar sem kröfurnar voru miklar. Eins og svo margir íslenskir þjálfarar höfðu mátt þola, var Kristján látinn taka poka sinn 22. febrúar 2020, en þá var Löwen í sjötta sæti, tíu stigum á eftir Kiel.

Í neðri deildum

 Fjölmargir Íslendingar hafa þjálfað 2. deildarlið í Þýskalandi, eins og hefur komið fram áður í pistlum mínum; Viggó Sigurðsson, Wuppertal, Alfreð Gíslason, Hameln og þriðji í röðinni var Atli Hilmarsson, sem gerðist þjálfari hjá Friesenheim í Ludwigshafen við Bodensee, en hann sagði starfi sínu lausu 2003, þegar ljóst var að liðið myndi ekki ná því að komast í „Bundesliguna.“

 Rúnar Sigtryggsson var spilandi þjálfari með Eisenach í 2. deild keppnistímabilið 2004-2005. Hann tók við 2. deildarliðinu EHV Aue frá suðurhluta austur Þýskalands 2012 og var þjálfari liðsins fjögur keppnistímabil, til 2016. Þá tók hann við „Bundesliguliðinu“ Balingen-Weilstetten, en liðið féll. Rúnar þjálfaði það síðan í 2. deild 2017-2018.

 Þess má geta að forráðamenn Aue kölluðu á Rúnar í desember 2020 og báðu hann að koma tímabundið og þjálfa liðið í veikindaleyfi þjálfarans Stephan Swat. Rúnar svaraði kallinu og fór síðan aftur eftir áramót til Aue og stjórnaði liðinu í um fjóra mánuði, eða þar til Swat var búinn að jafna sig af veikindum tengdum kórónuveirunni.

Aðalsteinn Eyjólfsson var útnefndur Þjálfari ársins í 2. deild 2017, þegar hann kom Hüttenberg upp í “Bundesliguna!” Hafði árið áður komið liðinu upp í 2. deild.

 Aðalsteinn Eyjólfsson tók að sér þjálfun kvennaliðsins TuS Weibern, en var ekki hjá liðinu nema eitt keppnistímabil, 2004-2005. Félagið átti í miklum fjárhagsvandræðum og fékk Aðalsteinn og leikmenn liðsins ekki greitt laun í þrjá mánuði, en í leikmannahópnum voru landsliðskonurnar Jóna Margrét Ragnarsdóttir, Sólveig Lára Kjærnested og Dagný Skúladóttir.

 Aðalsteinn fór síðan aftur til Þýskalands 2008 og tók við þjálfun karlaliðs SVH Kassel, sem var utandeildarlið. Hann fór frá liðinu 2010 og tók við 2. deildarliðinu Eisenach og kom því upp í „Bundesliguna“ 2013-2014, en liðið féll strax og var Aðalsteinn leystur frá störfum. Hann tók við Hüttenberg í 3. deild 2015 og kom liðinu upp í „Bundesliguna“ 2017 og var þá útnefndur þjálfari ársins í 2. deild, fyrir að koma liði upp um tvær deildir á tveimur árum.

  Aðalsteinn ákvað að fara frá Hüttenberg eftir 10 umferðir 2017-2018; nýtti ákvæði í samningi sínum, að hann mætti fara ef hann fengi boð frá öðru „Bundesliguliði“ Það fékk Aðalsteinn; fór til Erlangen og stjórnaði hann liðinu í „Bundesligunni“ þrjú keppnistímabil; 2017-2020. Þá fór hann til Kadetten Schaffhausen í Sviss, þar sem hann gerði liðið að Svisslandsmeisturum um sl. helgi.

 Patrekur Jóhannesson var ráðinn þjálfari 2. deildarliðsins Emsdetten 2010 og léku þrír Íslendingar með liðinu, sem hafnaði í þriðja sæti; Heiðar Levy Guðmundsson, markvörður, Fannar Þór Friðgeirsson og “Rússajeppinn” Sigfús Sigurðsson. Patrekur tók ekki tilboði liðsins um að halda áfram.

 Hannes Jón Jónsson var þjálfari 2. deildarliðsins Bietigheim í tvö keppnistímabil; 2019-2021, en þá fór hann til Alpla HC Hard í Austurríki.

 Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun 2. deildarliðsins Gummersbach 2020 og var liðið nær búið að tryggja sér sæti í „Bundesligunni“ – varð í þriðja sæti 2021. Guðjón Valur náði aftur á móti fyrsta sæti í 2. deildarkeppninni á dögunum og leikur Gummersbach því á nýjan leik í „Bundesligunni“ næsta keppnistímabil. Með liðinu leika landsliðsmennirnir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson.

Guðjón Valur fetaði í gær í fótspor Aðalsteins Eyjólfssonar þegar hann var valinn þjálfari ársins í 2. deild. Aðalsteinn hreppti nafnbótinu þjálfari ársins í 2. deild 2017, þegar hann kom Hüttenberg upp í “Bundesliguna!” Hafði árið áður komið liðinu upp í 2. deild.

 Guðjón Valur verður ekki eini íslenski þjálfarinn á ferðinni í „Bundesligunni“. Heiðmar Felixson hefur verið aðstoðarþjálfari Christian Prokop hjá Hannover-Burgdorf frá 2021 og Ólafur Stefánsson var ráðinn aðstoðarþjálfari Spánverjans Raúl Alonso hjá Erlangen snemma á þessu ári.

 Heiðmar var þjálfari og leikmaður 3. deildar liðsins Grossburgwedel 2010-2012, þjálfaði unglingalið hjá TSV Burgdorf og þjálfari 3. deildarliðs TSV Burgdorf.

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Nokkrar fyrri greina Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!

Íslendingar komu, sáu og sigruðu

Blaðamaður „stal“ aðalhlutverkinu!

Ólafur var sá besti

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir í fótspor Ólafs og Alfreðs?

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -