Sænski markvörðurinn Andreas Palicka varð fyrir því óláni að fá bolta í augað í vináttulandsleik Svíþjóðar gegn Brasilíu í gærkvöldi. Af þeim sökum var hann fluttur á sjúkrahús í Gautaborg.
Palicka kom inn á í upphafi síðari hálfleiks en aðeins fimm mínútum síðar þurfti hann að fara af velli eftir að bylmingsskot leikmanns Brasilíu fór í andlitið á honum og hæfði til að mynda annað augað.
Blæðing á auga og blóðnasir
Palicka hlaut blæðingu á auga, tapaði linsu og fékk blóðnasir þegar óhappið dundi yfir. Læknir sænska landsliðsins, Arnar Sigurðsson, skoðaði markvörðinn reynda í keppnishöllinni áður en hann var svo fluttur á Östra-sjúkrahúsið í Gautaborg.
„Andreas þurfti að fara með hraði til augnlæknis þar sem niðurstaðan var sú að blætt hafði inn á auga hans. Hann mun ekki æfa næstu daga en við erum vongóðir að eftir frekari skoðanir geti hann hafið æfingar að nýju í byrjun næstu viku og verði þannig tilbúinn fyrir fyrsta leik Evrópumótsins,“ segir Arnar í tilkynningu frá sænska handknattleikssambandinu.
„Vonir um að ég geti tekið þátt í æfingum að fullu í byrjun næstu viku eru miklar,“ segir Palicka í tilkynningunni.




