Perla Ruth Albertsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að snúa heim í lið Selfoss í sumar eftir fjögurra ára veru í herbúðum Fram. Samningur Perlu Ruthar við Selfoss verður til þriggja ára, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss.
Perla Ruth hóf að æfa handknattleik á unglingsaldri með Selfossi og lék með liði félagsins um árabil en kaus að söðla um sumarið 2019 og ganga til liðs við Fram og varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu á síðasta ári og bikar- og deildarmeistari vorið 2020.
Perla er með leikja- og markahæstu leikmönnum Selfoss. Hún hefur spilað 137 leiki og skorað 457 mörk. Hún er fastamaður í landsliðinu og á 27 A-landsliðsleiki að baki og hefur skorað í þeim 41 mark. Perla Ruth var síðast valin í íslenska landsliðið í síðustu viku en framundan eru tveir leikir við B-landslið Noregs.
Perla Ruth var valin íþróttakona Umf. Selfoss 2017 og 2018.
„Handknattleiksdeild Selfoss er gríðarlega ánægð að fá Perlu aftur heim og er ljóst að hún verður mikil styrking við meistaraflokk kvenna í Olísdeildinni næsta vetur,“ segir m.a. orðrétt í tilkynningu.
Í tilefni af komu Perlu Ruthar til Selfoss hefur handknattleiksdeild félagsins sent frá sér meðfylgjandi myndskeið.