Endurkjör Hassan Moustafa sem forseta IHF var persónulegur sigur hans en aftur á móti ósigur handboltaheimsins. Enn og aftur hefur íþróttin snúið baki við umbótum, gagnsæi og ábyrgð. Þess í stað hefur hún verðlaunað kerfi sem byggir á þögn, hollustu og varðveislu valds. Kosning forseta IHF snerist aldrei raunverulega um framtíðarsýn eða forystu. Hún snerist um stjórn og stjórnin sigraði.
Þannig hefst pistill Svíans Ola Selby á vefnum Gohandball sem ítarlega hefur fjallað um stöðu Alþjóða handknattleikssambandsins síðustu daga og vikur í aðdraganda kosningaþings IHF sem fram fór í Kaíró í Egyptalandi um nýliðna helgi.
Harmleikurinn er ekki sá að Hassan Moustafa hafi uppskorið enn eitt kjörtímabilið í stól forseta. Harmleikurinn er fólginn í að handboltaheimurinn spurði sig enn og aftur ekki hvers konar samband hann vill halda úti.
Valdir kaflar úr pistli Selby birtast hér fyrir neðan í lauslegri þýðingu.
- Vikum og mánuðum fyrir IHF-þingið í Kaíró var eitt áberandi umfram allt annað: þögnin. Eins og ég greindi ítrekað frá fyrir GoHandball neitaði forseti IHF hvað eftir annað að tjá sig opinskátt um kosningarnar og framtíðarsýn IHF-forsetans og mótframbjóðenda hans. Dyrum var lokað, spurningum ósvarað, viðtölum hafnað. Ekki ein einasta alvarleg opinber umræða fór fram.
- Gerd Butzeck, Tjark de Lange og Franjo Bobinac fóru í framboð vitandi að líkurnar væru þeim í óhag en þeir bjuggust líklega ekki við þeirri miklu andstöðu við breytingar sem fólst í niðurstöðu kosninganna. Hver og einn þeirra benti á nýjar leiðir handboltanum til hagsældar, nútímavæðingu, skýrara stjórnskipulag og brotthvarf frá áratuga miðstýrðu valdi.

- Þremenningarnir hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum – ekki aðeins með niðurstöðuna, heldur með ferlið. Því þetta var ekki keppni milli hugmynda. Þetta var sýnikennsla í því hversu erfitt það er að skora á rótgróið kerfi þegar atkvæðablokkir eru tryggðar löngu áður en atkvæði eru greidd og þegar hollusta er verðlaunuð meira en hæfni.
Stofnun þar sem valdi er miðstýrt, gagnrýni er letjandi og umbætur eru taldar ógn mun ekki færa íþróttina áfram.
- Áður en þingið hófst lágu úrslitin fyrir. Vís stuðningur frá afrískum og asískum samböndum, ásamt stuðningi frá smærri handboltaþjóðum, útilokaði að Moustafa yrði steypt af forsetastóli eftir 25 ára valdatíð.
- Harmleikurinn er ekki sá að Hassan Moustafa hafi uppskorið enn eitt kjörtímabilið í stól forseta. Harmleikurinn er fólginn í handboltaheimurinn spurði sig enn og aftur ekki hvers konar samband hann vill halda úti.
- Stofnun þar sem valdi er miðstýrt, gagnrýni er letjandi og umbætur eru taldar ógn mun ekki færa íþróttina áfram. Hún mun verja sjálfa sig. Og það er nákvæmlega það sem þessi kosning táknar: sjálfsbjargarviðleitni fram yfir framfarir.
- Íþróttamenn, þjálfarar, stuðningsmenn og nýjar handboltaþjóðir eiga betra skilið en fjögur ár í viðbót af stöðnun sem er vafin inn í pólitískan stöðugleika. En þar til nógu mörg sambönd eru tilbúin að tjá sig opinskátt og kjósa í samræmi við það mun ekkert breytast.
- Handboltinn hafði tækifæri til að hefja lestur á nýjum kafla í Kaíró. Þess í stað kaus hann að fletta til baka.



