Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður ungverska meistaraliðsins One Veszprém segir að kröfurnar aukist með hverju árinu innan félagsins um að ná árangri í Meistaradeild Evrópu. „Ég er að hefja mitt fjórða tímabil hjá félaginu og fram til þessa höfum við ekki náð lengra en í átta liða úrslit,“ sagði Bjarki Már þegar þegar handbolti.is hitti hann í síðustu viku í Kaplakrika.
„Markmiðið er alltaf að fara til Kölnar og berjast um þann stóra. Við höfum verið grátlega nærri markmiðinu undanfarin ár. Féllum út í vor á einu marki fyrir Magdeburg í átta liða úrslitum. Magdeburg fór síðan til Kölnar og vann keppnina,“ segir Bjarki Már.
Áfram hafa öflugir leikmenn verið keyptir til One Veszprém í sumar til að styrkja liðið sem hefur auk þess á að skipa einum fremsta þjálfara samtímans, Spánverjanum Xavier Pascual.
Meginkeppnin í ungversku deildinni er við Janus Daða Smárason og liðsfélaga í Pick Szeged sem hefur sömu markmið, ungverski meistaratitilinn og sæti í undanúrslitum Meistaradeildar.
Bjarki Már segist vera í toppmálum í upphafi leiktímabilsins og hugsanlega þess síðasta hjá félaginu. „Mér líður eins og ég sé að byrja í handboltanum,“ segir Bjarki Már og brosir.
Lengra viðtal við Bjarka Má er í myndskeiði hér fyrir ofan.