„Ég losna úr fjórtán daga sóttkví á miðnætti og síðan er leikur strax á morgun,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildarliðsins Bergischer HC við handbolta.is í dag. Arnór er að ljúka sinni annarri 14 daga sóttkví á miðnætti og hefur þar með verið í sóttkví í fjórar vikur af síðustu fimm eftir að smit kórónuveiru kom upp í leikmannahópi Bergischer.
Arnór Þór hefur ekki smitast en orðið að sæta sóttkví engu að síður. Hann segir undanfarnar vikur hafa reynt mjög á sig. Arnór hefur farið í 10 sinnum í skimun upp á síðkastið og alltaf reynst neikvæður.
Arnór og félagar fá engan tíma til að ná sér á strik eftir sóttkvína því þeir eiga að mæta Tusem Essen á útivelli strax á morgun klukkan 16.30 í þýsku 1. deildinni. Reyndar gátu átta leikmenn úr hópnum sem veiktust af kórónuveirunni í fyrra skiptið sem hún kom upp innan liðsins, fyrir páska, æft saman síðustu tvær vikur. Þeir ósýktu, eins og Arnór Þór, hafa orðið að vera heima hjá sér, eins og þeir sem smituðust nú í annað skiptið.
„Við eigum eftir 14 leiki í deildinni og verðum að ljúka þeim fyrir 27. júní. Þar af leiðandi verðum við að spila á þriggja til fjögurra daga fresti fram til loka júní til að ljúka öllum leikjum. Veiran hefur sett stórt strik í reikninginn hér ytra og lítill tími til að ljúka mótinu á annan hátt en að leika mjög þétt,” segir Arnór Þór Gunnarsson sem hlakkar mjög til að losna úr sóttkví eins og gefur að skilja.