- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Réðum lögum og lofum þegar á leið

Þorsteinn Leó Gunnarsso, Tryggvi Þórisson, Ísak Gústafsson og Andri Finnsson. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

„Við vorum lengi í gang í dag en þegar á leikinn leið þá tókst okkur að sýna styrk þann sem býr í liðinu,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðsins í samtali við handbolta.is í dag eftir sigurinn á Chile í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Aþenu, 35:18. Sigurinn tryggði íslenska landsliðinu sæti á meðal 16 efstu liða mótsins.

Ekki skemmtilegur leikur

„Chilemenn léku rosalega langar sóknir með sjö mönnum sem varð þess valdandi að við vorum oft mjög bráðir í sóknarleiknum, loksins þegar við unnum boltann. Segja má að við værum í vörn meira og minna allan fyrri hálfleikinn og kannski í 40 mínútur þegar leikurinn er gerður upp. Þetta var ekkert sérstaklega skemmtilegur leikur,“ sagði Einar Andri ennfremur um viðureignina við Chile. Einar Andri er ekki þekktur fyrir að taka djúpt í árinni. Þar af leiðandi eru ummæli hans um viðureignina við Chile áhugaverð. Því miður brást útsending Grikkja frá leiknum og eru þar af leiðandi ekki margir til frásagnar.

Réðu lögum og lofum

Sex marka munur var í hálfleik gegn Chile í morgun, 12:6, fyrir Ísland. Síðustu 10 til 15 mínúturnar var um einstefnu að ræða. „Okkur tókst að stilla betur saman strengina í síðari hálfleik. Um leið og taktur komst í okkar leik þá réðum við lögum og lofum,“ sagði Einar og ljóst að fargi var létt eftir slakan leik í gær.

Þrettán gegn þremur

Síðustu 13 mínútur leiksins skoraði íslenska liðið 13 mörk gegn þremur frá Suður Ameríkmönnunum sem töpuðu með 28 marka mun fyrir Serbum í gær. „Við áttum að vera fyrir löngu búnir að keyra yfir Chilebúana,“ sagði Einar sem var sáttari við heildarbrag íslenska liðsins í dag eftir slakan leik í gær gegn Marokkó, segja má að íslensku piltarnir hafi þá sloppið með skrekkinn.

Stálheppnir gegn Marokkó

„Frammistaðan gegn Marokkó var mikil vonbrigði. Við vorum algjörlega út úr karakter. Varnarleikur og markvarsla bjargaði okkur. Við vorum bara stál heppnir. Strákunum tókst að bjarga sér fyrir horn í lokin og eiga hrós skilið fyrir það,“ sagði Einar Andri Einarsson sem þegar er farinn að leggja línurnar fyrir stórleikinn síðdegis á föstudaginn gegn Serbum.

Einar Andri Einarsson, t.v., og Róbert Gunnarsson þjálfarar U21 ár landsliðs karla. Mynd/IHF/ Jozo Cabraja

Serbar eru með frábært lið

Viðureignin við Serba á föstudaginn verður hreinn úrslitaleikur um efsta sæti G-riðils og mikilvægur með tilliti til þátttökuréttar í átta liða úrslitum mótsins. Þangað leitar hugur íslenska liðsins. Leikurinn hefst klukkan 17.15 sem er kostur. Lengri tími til undirbúnings og leiktími sem menn eru e.t.v. vanari.

„Serbar eru með frábært lið sem varð í þriðja sæti á EM 20 ára liða fyrir ári. Við vorum þá með þeim í riðli og skildum með skiptan hlut, 28:28. Það er klárt mál að við verðum að bæta okkar leik talsvert fyrir átökin á föstudaginn. Þess vegna munum við æfa og leggja á ráðin.
Við erum spenntir að takast á við Serbana. Stærri leikirnir hafa verið góðir hjá okkur á síðustu árum. Þeir hafa dregið það besta fram hjá strákunum og þjálfarateyminu,“ sagði Einar Andri Einarsson sem er ásamt Róberti Gunnarssyni þjálfari 21 árs landsliðs karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -