Henny Reistad skaut norska landsliðinu í úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í kvöld. Hún skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu framlengingarinnar, 29:28, í frábærum undanúrslitaleik í Jyske Bank Boxen í Herning í kvöld.
Noregur leikur þar með í níunda sinn til úrslita um heimsmeistaratitilinn. Klukkan 20 hefst síðari undanúrslitaleikurinn hvar mætast Frakkar og Svíar. Leikurinn verður sendur út á RÚV2.
Með sigurmarkinu kórónaði Reistad stórleik sinn. Hún skoraði 15 mörk í öllum regnboganslitum, ef svo má segja, og notaði til þess 17 skot. Einnig lék Reistad afar vel í vörninni og undirstrikaður þá staðreynd sem haldið hefur verið fram að hún sé besta handknattleikskona heims um þessar mundir.
Tapið var sárgrætilegt fyrir Dani því þeir voru frábærir í fyrri hálfleik þegar þeir léku norska liðið sundur og saman. Staðan í hálfleik var 14:9 danska liðinu í dag.
Danir urðu fyrir miklu áfalli snemma í síðari hálfleik þegar Kathrine Heindahl meiddist á ökkla og kom ekkert meira við sögu. Hún hafði verið besti leikmaður liðsins ásamt Althea Reinhardt markverði.
Fljótlega í síðari hálfleik náði norska liðið betri stjórn á leik sínum. Það var hinsvegar lengi vel einu og tveimur mörkum undir. Þórir Hergeirsson þjálfari lék leikreyndustu leikmenn sína nær allan síðari hálfleik og skipti óvenjulítið.
Reistad jafnaði meti, 22:22, þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Var það í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0:0 sem jafnt var. Sanna Charlotte Solberg-Isaksen kom Noregi yfir í fyrsta sinn yfir, 23:22, þegar 90 sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Framlengingin var síðan æsilega spennandi þar sem sannarlega gat brugðið til beggja vonar. Stríðsgæfan var með Þórir og leikmönnum hans.
Mörk Danmerkur: Kristina Jørgensen 7/4, Anne Mette Hansen 5, Louise Burgaard 4, Kathrine Heindahl 4, Emma Friis 3/1, Mie Højlund 3, Rikke Iversen 1, Line Haugsted 1.
Varin skot: Althea Reinhardt 13, 38% – Sandra Toft 1, 13%.
Mörk Noregs: Henny Ella Reistad 15/4, Stine Bredal Oftedal 5, Nora Mørk 3/3, Camilla Herrem 2, Thale Rushfeldt Deila 1, Stine Ruscetta Skogrand 1, Sanna Charlotte Solberg-Isaksen 1, Maren Nyland Aardahl 1.
Varin skot: Silje Solberg 10, 38% – Katrine Lunde 1, 8%.