- Auglýsing -
Hlaupið hefur á snærið hjá nýliðum Kórdrengja sem leika í Grill66-deild karla. Samkvæmt heimildum handbolta.is hefur félagið samið við Svein Aron Sveinsson um að leika með liði félagsins út keppnistímabilið.
Sveinn Aron er að komast á fulla ferð eftir að hafa slitið krossband fyrir rúmum 11 mánuðum í leik með Selfossi gegn Haukum. Eftir því sem næst verður komist er samningur Sveins Arons við Selfoss gengin út og ekkert til fyrirstöðu að hann geti leikið með Kórdrengjum á næstunni.
Mikill liðsstyrkur og reynsla kemur inn í lið Kórdrengja með Sveini Aroni. Hann lék lengst af með Val og var m.a. í Íslands- og bikarmeistaraliði Hlíðarendafélagsins vorið 2017. Einnig lék Sveinn Aron um skeið með Aftureldingu og síðar Selfossi í Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili í skamman tíma þar til krossbandið slitnaði.
Kórdrengir sitja í sjöunda sæti af 11 liðum í Grill66-deildinni.
- Auglýsing -