- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Róbert Aron fór ekki með til Skopje – Valsmenn sækja heim HC Vardar

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals gefur leikmönnum sínum skipanir. Ljósmynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
- Auglýsing -


Karlalið Vals er væntanlegt til Skopje í Norður Makedóníu síðdegis í dag en Valsmenn mæta HC Vardar í Jane Sandanski-handboltahöllinni í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik annað kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 16.45 að íslenskum tíma. Livey á útsendingarétt frá leikjum Evrópudeildar hér á landi en virðist ekki líflegt við að koma upplýsingum um útsendingarnar á framfæri.

Auk Vals taka Íslandsmeistarar FH þátt í riðlakeppni Evrópudeildar.

Er að jafna sig

Róbert Aron Hostert fór ekki með Valsliðinu til Norður Makedóníu. Hann er að jafna sig af meiðslum en á góðum batavegi, að sögn Óskars Bjarna Óskarssonar þjálfara Vals. Róbert hefur verið fjarri góðu gamni í síðustu leikjum Valsliðsins í Olísdeildinni.

„Fyrir utan Róbert Aron þá er ég með mína sterkustu sveit,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við handbolta.is þar sem hann var staddur á flugvellinum nærri Berlín í Þýskalandi. „Viktor Sigurðsson fékk högg í leiknum við FH í síðustu viku og æfði ekkert með okkur um helgina. Viktor er með okkur og tekur þátt í leiknum í Skopje annað kvöld,“ bætti Óskar Bjarni við.

HC Vardar er næst besta handknattleikslið í karlaflokki í Norður Makedóníu um þessar mundir. Félagið hafði árum saman á að skipa einu fremsta félagsliði Evrópu og m.a. vann það Meistaradeild Evrópu 2017 og 2019. Fjárhagsþrengingar settu í kjölfar strik í reikninginn sem m.a. þess valdandi að Eurofarm Pelister skaust upp fyrir HC Vardar og vann meistaratitilinn í karlaflokki þrjú síðustu ár. HC Vardar á keppnishöllin, Jane Sandanski, sem rúmar um 6.000 áhorfendur í sæti. Keppnishöllin er tengd glæsihótelinu Hotel Russia og veitingastað sem er eða var í eigu fyrrverandi forseta HC Vardar. Fljótið Vardar, sem sker Skopjeborg, rennur framhjá mannvirkjunum.

Erfitt að fá flug

Valsliðið beið eftir flugi áfram til Skopje frá þýsku höfuðborginni þegar handbolti.is heyrði í Óskari Bjarna. Hópurinn varð að fara með næturflugi til Berlínar en eins og þeir þekkja sem farið hafa til Skopje er ekki alltaf hlaupið að ferðum þangað.

„Vegna þess hversu seint við tryggðum okkur sæti í riðlakeppninnni þá var ekkert einfalt að fá flug til Skopje, hvað þá á þægilegum tíma,“ sagði Óskar Bjarni sem viðurkenndi að ekki væri óskastaða að fara með liðið í næturflugi.

„Við erum að öðru leyti brattir og hlökkum til leiksins gegn Vardar,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.

Leikjadagskrá Vals í riðlakeppni Evrópudeildar: (ísl.leiktímar)
8. október: HC Vardar – Valur, kl. 18.45.
15. október: Valur – Porto, kl. 18.15 (Kaplakriki).
22. október: Melsungen – Valur, kl. 18.45.
29. október: Valur – Melsungen, kl. 19.45 (N1-höllin).
19. nóvember: Valur – HC Vardar, kl. 19.45 (N1-höllin).
26. nóvember: FC Porto – Valur. kl.  19.45.
-Klukkan verður færð aftur um eina klukkustund í Evrópu aðfaranótt 27. október.

Sjá einnig: Stærsti handbolta viðburður á Íslandi frá HM95

[email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -