„Síðari hálfleikur var brilljant hjá okkur. Reyndar fórum aðeins úr þeim áherslum sem við viljum vinna eftir og gáfum fyrir vikið ákveðin færi á okkur. Það gekk upp í dag og við megum vera þakklát fyrir þennan sigur. Frammistaðan var mjög góð,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is strax eftir sigur íslenska landsliðsins á því færeyska, 28:23, í undankeppni EM í Þórshöfn í dag.
„Það var mikið meiri ákveðni í okkur í síðari hálfleik. Byrjunin var góð og við með fín tök á leiknum en virtumst aðeins fara inn í skelina. Fyrir vikið fengu færeysku stúlkurnar á tíðum að skora full auðveld mörk að mínu mati.
Annars er þetta færeyska lið gott og erfitt viðureignar. Mér fannst við ekki mæta þeim á tíðum í fyrri hálfleik af nægilegum krafti. Það fékk auðveld færi á milli eitt og tvö og eins úr hornum. Okkur tókst að komast fyrir það í seinni hálfleik,“ sagði Arnar og ljóst að nokkru fargi var af honum létt.
Geggjaðir áhorfendur
„Ég er rosalega ánægður með sigurinn,” sagði Arnar og bætti við að það hafi munað miklu að fá vaskan hóp Íslendinga á áhorfendapallana í dag en nærri 50 manns fylgdu íslenska liðinu eftir til Þórshafnar, þar á meðal Sérsveitin. Áhorfendur slógu ekki slöku við frá upphafi til enda leiksins.
„Svona stuðningur skiptir stelpurnar hrikalega miklu máli. Við töluðum um það strax í byrjun hversu magnað það væri að heyra í fólki strax í upphafi. Þetta var geggjað,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.