Eftir að báðum leikjum CSKA og Podravka var frestað í haust vegna heimsfaraldursins sem nú geisar ákváðu forráðamenn félaganna að spila svokallaðan tvíhöfða núna um helgina í Moskvu.
Í fyrri leik tvíhöfðans lét botnlið B-riðils Podravka svo sannarlega finna fyrir sér en þó fór svo að lokum að þær rússnesku höfðu betur, 30-26. Heimaliðið byrjaði leikinn virkilega vel og komst snemma í forystu, 5-2, en þeim mistókst hins vegar að auka frekar við forystuna og þær króatísku voru aldrei langt undan í fyrri hálfleiknum þó að CSKA hafi farið með tveggja marka forystu, 18-16, inní hálfleikinn.
Leikmenn Podravka voru staðráðnar í því að reyna gera sitt allra besta til þess að fá eitthvað úr leiknum og bitu hressilega frá sér í seinni hálfleik. Eftir aðeins sjö mínútna leik í seinni hálfleik komust gestirnir yfir, 21-20, og voru með byr í seglum. Það var svo hin 42 ára gamla Chana Masson markvörður CSKA sem kom þeim rússnesku til bjargar. Hún kom inná á lokakafla leiksins og varði 5 skot eða 55% af þeim skotum sem hún fékk á sig. Það varð til þess að CSKA náði að snúa leiknum sér í vil og vann með fjögurra mark mun, 30-26.
Þetta er fjórði sigurleikur CSKA og er liðið komið með 19 stig í öðru sæti B-riðils aðeins einu stigi á eftir toppliði Györ. CSKA á auk þess leik til góða. Podravka hefur nú beðið lægri hlut í níu leikjum í röð og er á botni riðilsins með 2 stig.
Eins og áður segir þá spila þessi lið aftur á morgunn og með sigri í þeim leik geta nýliðarnir í CSKA tyllt sér á topp riðilsins.
CSKA 30-26 Podravka (18-16)
Mörk CSKA: Polina Vedekhina 6, Antonina Skorobogatchenko 6, Darya Dmitrieva 4, Ekaterina Ilina 4, Sara Ristovska 4, Marina Sudakova 2, Yuliia Markova 1, Natalia Chigirinova 1, Kathrine Heindahl 1, Anastasiia Illarionova 1.
Varin skot: Chana Masson 5, Anna Sedoykina 3, Polina Kaplina 1.
Mörk Podravka: Dejana Milosavljevic 7, Dijana Mugosa 4, Nikolina Zadravec 3, Lamprini Tsakalou 3, Ana Turk 2, Dragica Dzono 2, Azenaide Carlos 2, Aneja Beganovic 1, Korina Karlovcan 1, Lea Franusic 1.
Varin skot: Yuliya Dumanska 10, Magdalena Ecimovic 3.