„Danska deildin er töluvert sterkari en sú sænska auk þess sem stórstjörnur hafa verið og eru að koma heim sem styrkir deildina ennþá meira Til viðbótar er almennt meiri áhugi á handbolta í Damörku en í Svíþjóð,“ sagði handknattleiksmarkvörðurinn Daníel Freyr Andrésson er handbolti.is rakst á hann á æfingu íslenska landsliðsins í handknattleik í Framhúsinu í gær.
Hann er einn þriggja markvarða sem æfir með íslenska landsliðinu hér á landi þessa vikuna.
Frá Eskilstuna til vesturstrandar Jótlands
Daníel Freyr flytur frá Eskilstuna í Svíþjóð í vor og til vesturstrandar Jótlands í Danmörku en fyrr á árinu skrifaði Hafnfirðingurinn undir tveggja ára samning við danska liðið Lemvig-Thyborøn. Lemvig liðið er nú langt komið með sitt fjórða tímabil í röð í úrvalsdeildinni og situr um þessar mundir í 9. sæti af 15 þegar fjórir leikir standa út af borðinu.
Elvar Friðriksson er eini íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikið hefur með Lemvig-Thyborøn. Hann var í herbúðum félagsins leiktíðina 2010 til 2011 en lék aðeins fimm leiki vegna slæmra axlarmeiðsla.
Spennandi að spreyta sig í sterkari deild
„Ég skoðaði aðstæður hjá félaginu í desember og leist vel á og skrifaði undir samning í kjölfarið. Ég hlakka til að fara aftur til Danmerkur, þetta er mjög spennandi að reyna sig í mun öflugri deild. Til viðbótar þá verða rútuferðirnar í útivallarleikina töluvert styttri en í Svíþjóð,“ sagði Daníel sem er langt kominn með sitt fimmta keppnistímabil í Svíþjóð en frá 2016 til 2019 var hann markvörður Ricoh.
Fór of snemma
„Mér fannst ég fara of snemma frá Danmörku á sínum tíma og hef svo sem horft til þess að komast þangað aftur. Ég talaði um það við umboðsmann minn að ef tækifæri gæfist á að fara á ný til Danmerkur þá væri ég opinn fyrir þeim möguleika,“ sagði Daníel Freyr sem lék með SønderyskE í Danmörku frá 2014 til 2016.
Daníel Freyr hefur leikið með Guif í Eskilstuna í tvö ár eftir að hafa verið ár hjá Val, leiktíðina 2019 til 2020. Daníel Freyr lék með FH fram til 2014 og varð m.a. Íslandsmeistari með FH 2011.
Guif er í hörkukeppni um að komast í úrslitakeppni átta efstu sænsku úrvalsdeildarinnar. Sem stendur er Guif í níunda sæti.
Í sumarfrí næstu viku?
„Við vonum að Lugi misstígi sig í tveimur síðustu leikjunum svo við eigum möguleika á að krækja í áttunda sætið. Ef Lugi tapar ekki þá verðum við komnir í sumarfrí í næstu viku. Síðasti deildarleikur okkar verður á fimmtudaginn að rúmri viku liðinni. Leikjafyrirkomulagið er sérstakt í Svíþjóð. Við lékum 11 eða 12 leiki í febrúar og svo getur maður verið kominn í frí áður en mars verður á enda. Liðin sem hafna í níunda og tíunda sæti hafna í einskismannslandi, ef svo má segja, því liðin fyrir neðan keppa um að forðast fall og efstu átta taka þátt í úrslitakeppni um meistaratitilinn,“ sagði Daníel Freyr Andrésson, handknattleiksmarkvörður í samtali við handbolta.is.