- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sætaskipti á toppnum

Orri Freyr Þorkelsson flytur til Noregs í júlí. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

Haukar unnu Aftureldingu með sex marka mun, 30:24, í Olísdeild karla að Varmá í kvöld og komust þar með í efsta sæti deildarinnar, en þar sátu Aftureldingarmenn fyrir leikinn. Haukar hafa tíu stig eftir sex leiki. Afturelding er með níu stig eftir sex leiki eins og ÍBV sem gerði jafntefli við Gróttu á heimavelli í kvöld. Valur og FH geta jafnað metin við Hauka síðar í kvöld.


Afturelding var með frumkvæðið lengst af í fyrri hálfleik. Hauka-liðið var langt frá því að vera sannfærandi, hvorki í vörninni sem opnaðist oft né í sóknarleiknum þar sem fátt gekk upp gegn ákveðinni vörn Aftureldingar. Skot Haukamanna voru slök, mörg hver. Afturelding var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:13.
Allt annað Haukalið kom inn á leikvöllinn í síðari hálfleik. Ekki síst var varnarleikurinn mikið betri. Afturelding skoraði aðeins eitt mark á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks. Haukar skoruðu sjö mörk á sama tíma.


Aftureldingarliðinu gekk illa að brjóta öfluga vörn Hauka á bak aftur. Tíu mínútum fyrir leikslok var munurinn fimm mörk, 25:20. Haukum í hag. Þau tök sem Haukar höfðu náð á leiknum létu þeir aldrei af hendi.
Nafnarnir Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og hinn ungi og stórefnilegi Þorsteinn Leó Gunnarsson báru uppi sóknarleik Aftureldingar ásamt Blæ Hinrikssyni. Vegna meiðsla nokkurra leikmanna hefur dregið mjög úr breiddinni í sóknarleik Mosfellinga.

Haukar hafa hinsvegar úr breiðum og sterkum leikmannahópi að ráða um þessar mundir. Það eru ekki mörg lið sem hafa fjóra nánast jafn sterka leikmenn til þess að leika í hjarta varnarinnar. Slíkt hafa Haukar. Þeir hafa nánast tvo leikmenn í hverja stöðu á leikvellinum og tvo afbragðsmarkverði, þar af landsliðsmarkvörðinn Björgvin Pál Gústavsson. Þótt Haukar hafi ekki sýnt sparihliðarnar nema hluta þessa leiks þá er engum vafa undirorpið að þeir eru ógnarsterkir.


Úlfar Páll Monsi Þórðarson, hornamaður Aftureldingar, tognaði á vinstra læri eftir sprett upp leikvöllinn í hraðaupphlaupi í fyrri hálfleik. Hann kom ekkert við sögu í leiknum eftir það.
Einar Ingi Hrafnsson fékk högg á nefið í fyrri hálfleik eftir viðskipti við Geir Guðmundsson. Einar Ingi kom ekki aftur inn á leikvöllinn fyrr en nokkuð var liðið á síðari hálfleik.

Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 7, Blær Hinriksson 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Þrándur Gíslason Roth 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson , Guðmundur Árni Ólafsson 1, Einar Ingi Hrafnsson 1, Gunnar Kristinn Þórsson 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 10 skot, 30,3% – Bjarki Snær Jónsson 2 skot, 28,6%.

Mörk Hauka: Geir Guðmundsson 6, Orri Freyr Þorkelsson 6, Brynjólfur Snær Byrnjólfsson 5, Tjörvi Þorgeirsson 5, Atli Már Báruson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Heimir Óli Heimisson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12 skot, 37.5% – Andri Sigmarsson Scheving 1 skot, 20%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -