„Svona sigrar eru rosalega sætir og gefa manni byr undir báða vængi fyrir framhaldið,” sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, eftir nauman sigur á HK, 25:24, í fystu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýri í kvöld. HK átti síðustu sóknina og átti þess kost að jafna metin en allt kom fyrir ekki.
„Ég viðurkenni að ég var hrædd þegar HK fór í síðustu sóknina og innan við hálf mínúta var eftir. Það eru afar klókir leikmenn í HK-liðinu og það er gaman að spila við þá. Ég hafði hinsvegar mikla trú á liðinu okkar og Katrínu í markinu sem hefur komið mjög sterk inn á undirbúningstímabilinu,” sagði Steinunn og bætti við að sigurinn í dag, þótt naumur væri, hafi verið afar mikilvægur eftir tapið fyrir KA/Þór í Meistarakeppni HSÍ á síðasta sunnudag.
„Í ljósi úrslitanna og leikjarins á sunnudaginn var það afar mikilvægt að vinna þennan rosalega sveiflukennda leik þar sem við vorum þó með yfirhöndina allan tímann. En það var rosalega mikilvægt að vinna þessi tvö stig sem voru í boði,” sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram þegar handbolti.is hitti hana eftir sigurinn á HK í Safamýri.