- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sagan bakvið umbreytinguna

Mikið var um dýrðir í Kaplakrika í gærkvöld þegar FH og Afturelding mættust í fyrstu umferð Olísdeildar karla. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Aðsend greinSagan bakvið umbreytinguna

Ingólfur Hannesson,
höfundur er ráðgjafi HSÍ.


Í vikunni má segja að HSÍ og handboltinn hafi stigið inní nýja veröld stafrænnar útbreiðslu íþróttarinnar með því að stýra frá A til Ö nýtingu þeirra réttinda sem eru í eigu sambandsins.  Hér er einkum átt við fjölmiðla-, streymis-, gagna- og tengd markaðsréttindi.  Mér er ekki kunnugt um að önnur stór sérsambönd í Evrópu hafi þannig stigið skrefið til fulls með því að miðla efstu deildum beint til þeirra sem áhuga hafa. 

Ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki um aðdraganda að þessu og hér á eftir er ætlunin að útskýra ferlið aðeins nánar.  Sjálfur kom ég að sérstakri ráðgjöf fyrir HSÍ undir lok síðasta árs eftir að hafa hjálpað Íslenskum Toppfótbolta, ÍTF, við að endurhanna nýtingu margvíslegra réttinda og byggja upp fyrirkomulag sem gerði ÍTF kleift að meira en tvöfalda tekjur sínar frá fyrri árum.  En það er önnur saga.

Fyrsta skrefið var býsna einfalt, að bjóða Stöð2 Sport að halda áfram samstarfi með vissum breytingum.  Fundur var haldinn 2. desember á síðasta ári þar sem þessum skilaboðum var komið  skýrt áleiðis, þ.e. að óskir HSÍ væru ótvíræðar og vilji til að halda áfram á sameiginlegri vegferð.  Annar fundur var síðan haldinn 31. janúar á þessu ári, en þar varð ljóst var að erfitt gæti verið að ná saman um framhaldið, því miður.  Til að gera langa sögu stutta teygðist á þessu ferli þangað til nokkru eftir að Íslandsmóti lauk sl. vor, en ekkert gagntilboð hafði verið lagt fram í milltíðinni.  Fyrir því voru að sögn viðskiptalegar forsendur hjá Stöð2 Sport, of mikill kostnaður við að halda úti umfjöllun um handbolta og ekki nægilegar tekjur.  Þarna var því komið að vatnaskilum.


Allt frá upphafi ársins höfðum við skoðað möguleika á einföldum útsendingum með myndavélum stýrðum af gervigreind og var því farið í útboð til þekktra aðila á þessum markaði, sem allir voru með reynslu af fótbolta, ísknattleik og handbolta.  Ætlunin var að dekka leiki neðri deilda og yngri flokka og setja í sérstakt app, sem yrði gert aðgengilegt fyrir almenning.  Einn aðili var valinn, samningaviðræður settar í gang og þær á lokasprettinum þegar endanlega varð ljóst að samningur við Stöð2 Sport væri ekki inní myndinni. 

Síðastliðið vor og inní sumarið voru einnig ýmsir aðrir möguleikar skoðaðir, samtöl við alla aðila sem kynnu að koma til greina, m.a. Viaplay, sem í raun hafði kröfu uppi um að fá sjónvarpsmerki afhent frá öllum leikjum (svipaðar kröfur og gerðar voru til ÍTF um tveimur árum áður).

Við þessar aðstæður þurfti að hugsa útfyrir boxið og ný strategía sett upp.  Boðað var til fundar með Símanum í júní og þá fóru hjólin að snúast, einkum fyirir tilstilli Birkis Ágústssonar, deildarstjóra og Magnúsar Ragnarssonar, sjónvarpstjóra Símans.  Við lögðum fram nýtt konsept þar sem lagt var til að HSÍ, Síminn, mbl.is, RÚV (bikar) með Olís sem bakhjarl myndu byggja upp alveg nýja, stafræna nálgun.  Í minnisblaði mínu frá 26. júní stendur m.a:

  • „Síminn verði með sérstaka handboltarás…… Á rásinni verði allir leikir sem spilaðir eru í efstu deildum og bikarkeppni (samsending með RÚV og leikir sem ekki eru sýndir þar). 
  • Áskriftargjald verði 990 kr per mánuð (á eftir að ákveða, 1.490 hefur líka verið nefnt)
  • Eins verði athugað að allir leikir í öllum húsum verði einnig sendir á rásinni, en slíkt þarf að ræða frekar við samstarfsaðila HSÍ….
  • Stefnt að „leik umferðarinnar“ í karla og kvennaboltanum á Handboltarás Símans, um 40 leikir á tímabili.  Útsending verður með amk 3 myndavélum (amk 50FPS, 1080p, grafík og full sjónvarpsgæði.
  • Síminn annist alla innheimtu áskriftargjalda, en HSÍ eða einstök félög geti einnig safnað áskriftum…..
  • Síminn veitir aðgang til annarra aðila t.d. vegna veðmála-/streymis-/gagnaréttar.
  • Aðilar skipti með sér hagnaði af áskriftum, auglýsingasölu og kostun í tengslum við útsendingarnar…..“

Þetta var semsagt í lok júnímánaðar.  Ofangreint var það sem sammælst var um og haldið áfram á fullri ferð. Hætt var við samning við erlenda fyrirtækið um útsendingar úr öllum íþróttahúsunum og samningaviðræður við sænska fyrirtækið Spiideo teknar upp, en það fyrirtæki bauð möguleika á hágæða útsendingu (með einni myndavél/gervigreind/grafík/lýsingum), tekin ákvörðun um að HSÍ myndi sjálft fjárfesta í búnaðinum, en Spiideo sjá um framleiðslu allt að 600 leikja á ári.  Eftir ótal fundi og nokkrar umferðir var samningur (36 blaðsíður, þar af 8 af snúnum lagatexta) undirritaður í byrjun ágústmánaðar.

Þegar hryggjarstykkið var komið var markaður fyrir framleiðslu á þessum +40 leikjum kannaður, gæði og kostnaður.  Niðurstaðan var að nálgast Skjáskot, lítið fyrirtæki með afar góðan orðstír. Þar eru þeir feðgar Toddi Goði og Davíð Goði í fararbroddi.  Fjölmargir fundir og samningur (7 síður) frágenginn rétt fyrir mót.

Samhliða ofangreindu voru samtöl við mbl.is um umfjöllun og margvíslegt samstarf.  Þar liggur fyrir handsal, samningsdrög á borðinu og mikill áhugi hjá báðum aðilum.  Mbl.is og Síminn hafa átt í samstarfi varðandi enska boltann og var það fyrirkomulag notað sem fyrirmynd.

Í hópinn hafa slegist handbolti.is, sem gefur enn í og bryddar uppá nýjungum og hlaðvarpið Handkastið, sem heldur áfram og byggir ofaná frábæra frammistöðu á síðasta tímabili.  Eins skapar þetta stafræna umhverfi óteljandi, nýja möguleika á dreifingu efnis um samfélagsmiðla sem og aðstoð við félög við leikgreiningar. Þannig mætti lengi telja.

Þá er ástæða til að minnast á RÚV, sem heldur áfram með stóru mótin og bikarinn í opinni dagskrá til allra landsmanna.  Þannig teiknast loks upp myndin af útbreiðslu og fyrirkomulagi útsendinga og umfjöllun hér á landi. 

(Smellið á myndina).

Á miðju sumri var farið í útboð til 6 erlendra aðila varðandi streymis- og gagnarétt, sem er nú í höndum HSÍ.  Útboðsgögn útbúin og fylgt eftir samtölum við amk. 3 þessara aðila.  Niðurstaðan var sú að semja við annað sænskt fyrirtæki, Commercial Sports Media, CSM, og verður samingur (11 síður)  þ.a.l. undirritaður nú í lok vikunnar eftir samningaviðræður í nokkrar vikur.  3 ára samningur þar sem nokkrar milljónir koma í hlut HSÍ á hverju ári, „nýir” fjármunir sem munu nýtast vel.

Síðastliðið vor og frameftir sumri var skiljanlega mikið óþol í mörgum áhugamönnum um handbolta varðandi hvernig þessum málum myndi reiða af, jafnvel ýjað að því að menn sætu með hendur í skauti.   En að baki er óhemjumikil vinna, sem einkum lagðist á herðar okkar Róberts Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ þar sem formaðurinn, Guðmundur B. Ólafsson fylgdist með hverju fótmáli og upplýsti sitt fólk.  Á lokametrunum tókst síðan að klófesta Bjarka Sigurðsson, sem er hvalreki þegar kemur að útsendingum og markaðsmálum.

Nú er að sjá hvernig þessu vindur áfram inní nýtt og spennandi tímabil.  Það er næsta víst að einhverjir hnökrar komi í ljós í byrjun, en HSÍ liðið bakvið þessa umbyltingu er staðráðið í að gera sitt besta, lagfæra og bæta við.  Þetta er bara byrjunin !

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -