- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sárgrætileg niðurstaða á Alicante – 15 markalausar mínútur

Frá æfingu Valsliðsins í keppnishöllinni í Elche.
- Auglýsing -

Valur féll naumlega úr leik i 3. umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik þrátt fyrir sigur í síðari viðureign sinn við Club Balonmano Elche, 21:18, Pabellon Esperanza Lag í Elche á Alicante í hádeginu í dag. Club Balonmano Elche vann fyrri viðureignina í gær með fimm marka mun og fór áfram í 16-liða úrslit, samanlagt 48:46.


Valsliðið lagði allt í sölurnar að þessu sinni og lék hreint frábærlega í fyrri hálfleik. Að honum loknum var forystan sex mörk, 15:9. Varnarleikurinn sem gekk illa í fyrri leiknum í gær var frábær í dag. Hvað eftir annað komu sóknarmenn Elche að lokuðum dyrum.


Thea Imani Sturludóttir jók forskotið í sjö mörk á annarri mínútu síðari hálfleiks, 16:9. Eftir það tók við 15 mínútna kafli þar sem Valur skoraði ekki mark. Nicole Alejandra Morales Claure, markvörður Elche, varði allt hvað af tók og lauk leik með 44% hlutfallsmarkvörslu og 15 skotum.

Loksins þegar Mariam Eradze tókst að brjóta ísinn fyrir Val með 17. markinu var forskot Vals komið niður í eitt mark. Síðustu 13 mínútur leiksins hélt Valur forskoti sínu en tókst ekki að auka það nóg til þess að ná að minnsta kosti fram vítakeppni sem hefði verið niðurstaðan með fimm marka sigri. Tíu sekúndum fyrir leikslok fékk Valsliðið möguleika á að ná fimm marka forskoti en Claure markvörður Elche sá til þess að sú varð ekki raunin Heimaliðið skoraði síðan 18. mark sitt á síðustu sekúndu.


Sárgrætileg niðurstaða fyrir Valsliðið sem átti svo sannarlega möguleika á að vinna leikinn með meiri mun. Gamla herslumuninn vantaði upp á auk þess sem slæmi kaflinn var of langur. Hvaða skoðun sem menn hafa á slæma kaflanum.

Leiða má líkum að því að Valur hefði staðið mikið betur að vígi ef annar leikurinn eða báðir hefðu farið fram á heimavelli. Þetta var sjötti leikur kvennaliðs Vals í röð á útivelli í Evrópukeppni.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/3, Sigríður Hauksdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Mariam Eradze 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Sara Dögg Hjaltadóttir 1.

Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 7, 39% – Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3, 30%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -