„Okkur tókst að gefa vel í þegar síðari hálfleikur hófst eftir að hafa dregið okkur inn í skel á kafla í fyrri hálfleik. Þó undirbúningur sé góður fyrir leikinn þá getur verið erfitt að koma inn í mikilvæga leiki þegar talsvert er undir eins og að þessu sinni,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir leikreyndasta landsliðskona Íslands um þessar mundir en hún lék sinn 123. landsleik í dag þegar íslenska landsliðið lagði færeyska landsliðið, 28:23, í annarri umferð undankeppni Evrópumótsins í handknattleik.
„Síðari hálfleikur var frábær hjá okkur og við bættist að Elín Jóna fór hamförum í markinu. Það gefur rosalega mikið. Thea kom líka mjög sterk inn í síðari hálfleik. Í heildina þá gáfum við allar aðeins meira í leikinn í seinni og það skilað þessum frábæra sigri.
Hrein forréttindi
„Til viðbótar þá var það bara afar mikilvægt fyrir okkur að klára þessa tvo leiki í undankeppni EM með sóma áður en við förum að snúa okkur að næstu keppni sem er heimsmeistaramótið. Núna má maður aðeins fara að hugsa aðeins lengra. Það eru hrein forréttindi að fá að upplifa þessa tíma,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í Þórshöfn í dag.