Flest bendir til þess að landslið Chile fái síðasta lausa sætið sem enn er óskipað í, á heimsmeistaramóti karla sem fram fer í Egyptalandi í janúar. Enn er einu sæti óráðstafað til ríkja í Suður- og Mið-Ameríku og til stóð að landslið Kólombíu, El Salvador, Chile og Paragvæ myndu keppa um sæti á móti sem stóð til að hæfist á morgun.
Hinsvegar er alveg ljóst að tvö liðanna, landslið Kólombíu og Paragvæ mæta ekki til leiks. Smit greindust á dögunum í leikmannahópi Kólumbíu og situr liðið fast heima. Eins er ástandið í Paragvæ svo slæmt um þessar mundir að landsliðið fær ekki leyfi til þess að fara úr landi.
Af þessum sökum hefur þeim óskum verið komið á framfæri við Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, af hálfu álfusambands Suður- og Mið Ameríkuríkja að landsliði Chile verði úthlutað keppnisrétti. Rökin á bak við þá ákvörðun er að landslið Chile hafi náð bestum árangri í síðustu álfukeppni af þeim fjórum liðum sem áttu að mætast í fyrrgreindri forkeppni nú í vikulokin.
Chile hefur tekið þátt á síðustu fimm heimsmeistaramótum í karlaflokki og verið á rólinu frá 16. til 23. sæti þegar upp hefur verið staðið.
Ef af verður fer Chile í riðil G með Svíþjóð, Tékklandi og Egyptalandi.
Argentína, Brasilía og Úrúgvæ taka einnig þátt í HM sem fulltrúar Mið- og Suður-Ameríku.