„Það er sigur fyrir okkur að mæta hingað og vera töluvert sterkari en Haukra þótt við séum vonsviknir yfir að hafa ekki náð að gera betur og komast í úrslitin. Á lokakaflanum fórum við illa að ráði okkar í nokkrum sóknum og þar lá munurinn,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, við handbolta.is í gærkvöld eftir að liðið féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik þrátt fyrir þriggja marka sigur, 32:29, á Haukum í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum.
Haukar unnu fyrri viðureignina með fimm marka mun og halda þar með áfram keppni og mæta Val í úrslitaleikjum á þriðjudag og föstudag.
„Við vildum láta reyna á skyttur Haukanna og fórum þar af leiðandi aftar í vörninni. Það gekk vel í fyrri hálfleik auk þess sem Brynjar Darri var frábær í markinu í fyrri hálfleik en datta aðeins niður í þeim síðari. Mér fannst sóknarleikurinn vera góður þótt því miður hafi borið á klaufamistökum sem var kannski munurinn þegar upp er staðið,“ sagði Patrekur ennfremur.
Hrósar Haukum
„Haukar eru með eitt þéttasta lið Íslandssögunnar. Aron Kristjánsson þjálfari er að gera mjög góða hluti. Það er ekki á færi hvers sem er að vera með allan þennan mannskap og ná að halda öllum við efnið, hafa alla góða. Hver einasti maður er með hlutverk. Aron á hrós skilið og eins Þorgeir vinur minn Haraldsson. Að hafa búið til lið sem er svo sterkt að þeir gætu verið með tvö lið á meðal átta efstu í deildinni,“ sagði Patrekur sem sjálfur hefur náð betri árangri en flestir forverar hans, alltént þegar litið er til árangurs Stjörnunnar sem náði inn í undanúrslit Íslandsmótsins í fyrsta skipti.
„Mér hefur verið hrósað mikið í Garðabæ og ég gleymi ekki heldur að klappa mér á bakið,“ sagði Patrekur þegar hann var spurður hvort hann ætti ekki sjálfur hrós skilið.
„Eftir að hafa talað við þig mun ég fara inn í klefa og ræða við strákana. Þeir geta horft í spegilinn inn í klefa eftir leikinn og sagt við sjálfa sig að þeir hafi skilið allt eftir á leikvellinum. Stjarnan sýndi núna gott dæmi um karakter. Hann dugði því miður ekki en fylgir okkur vonandi áfram.
Ég ber hinsvegar virðingu fyrir andstæðingum okkar hverju sinni og Haukar eiga allt sitt hrós skilið,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í gærkvöld.