Sigurjón Friðbjörn Björnsson hefur verið ráðinn afreksþjálfari elstu kvennaflokka handknattleiksdeildar FH. Hann tekur til starfa þann 1. janúar næstkomandi. Sigurjón lét af störfum sem þjálfari meistaraflokksliðs Gróttu í byrjun nóvember.
Hlutverk Sigurjóns verður að efla starf elstu flokka kvennaboltans enn frekar og bætist því í öflugan hóp þjálfara félagsins, segir í tilkynningu handknattleiksdeildar FH.
Fyrir uta að hafa þjálfað hjá Gróttu hefur Sigurjón þjálfað hjá ÍR, HK, Stjörnunni og Fjölni. Einnig var Sigurjón í fimm ár hjá HSÍ með U15 og U17 ára landslið kvenna.n
„Handknattleiksdeild FH lítur á ráðningu Sigurjóns sem mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu kvennastarfs félagsins og bindur miklar vonir við ráðingu hans,“ segir orðrétt í tilkynningu FH.