Annað árið í röð kemur íslenska landsliðið heim með silfurverðlaun frá Sparkassen Cup handknattleiksmótinu í Merzig í Þýskalandi. U18 ára landslið Íslands tapaði fyrir þýska landsliðinu, 34:26, í úrslitaleik í kvöld. Þjóðverjar voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:16.
Sannarlega frábær árangur hjá þessu unga liði sem tekur þátt í Evrópumótinu í ágúst á næsta ári.
Lengst af fyrri hálfleiks var staðan jöfn eða þá að liðin skiptust á um að vera marki yfir. Þjóðverjar skutust framúr á síðustu mínútunum áður en hálfleiknum lauk.
Íslensku piltunum tókst að minnka muninn í þrjú mörk í síðari háfleik, 23:20. Mikið nær komust þeir ekki.
Slóvenar, sem töpuðu fyrir íslenska liðinu í undanúrslitum í dag, höfnuðu í þriðja sæti eftir sigur á landsliði Sviss, 26:22.
Íslenska liðið lék fimm leiki á mótinu, vann þrjá en tapaði tveimur, báðum fyrir Þjóðverjum en liðin voru saman í riðli.
Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 11, Stefán Magni Hjartarson 6, Jens Bragi Bergþórsson 3, Antoine Óskar Pantano 2, Dagur Árni Heimisson 2, Harri Halldórsson 1, Marel Baldvinsson 1.
Varin skot: Óskar Þórarinsson 9.