Símon Michael Guðjónsson fór á kostum og skoraði 10 mörk fyrir HK í kvöld þegar liðið vann Hörð frá Ísafirði með 24 marka mun, 38:14, í Grill 66-deildinni í handknattleik karla í Kórnum í Kópavogi í lokaleik 15. umferðar. Með sigrinum komust Símon og félagar í HK á ný upp að hlið Víkings í efsta sæti deildarinnar. Víkingur vann ungmennalið Fram fyrr í dag.
HK hefur 26 stig og gefur ekkert eftir í kauphlaupinu um sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Hörður er í áttunda sæti með níu stigum eftir 14 leiki en liðið á leik inni.
Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburður HK-inga miklir í leiknum og ljóst strax í hálfleik að viðureignin yrði aldrei jöfn. Hörður var 12 mörkum undir í hálfleik, 18:6.
Mörk HK: Símon Michael Guðjónsson 10, Hjörtur Ingi Halldórsson 6, Kristján Ottó Hjálmsson 4, Ágúst Ingi Óskarsson 4, Kári Tómas Hauksson 2, Pálmari Fannar Sigurðsson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Sigurður Jeffersson Guarino 2, Bjarki Finnbogason 2, Sigurjón Guðmundsson 1, Kristófer Andri Daðason 1, Davíð Elí Heimisson 1, Kristján Pétur Barðason 1.
Mörk Harðar: Raivis Gorbunovs 4, Daniel Waile Adeleye 3, Jón Ómar Gíslason 2, Endijs Kusners 2, Guntis Pipuks 2, Óli Björn Vilhjálmsson 1.
Staðan í Grill 66-deild karla.